Nýja lýsingin í Hallgrímskirkju frumsýnd

Ný lýsing Hallgrímskirkju verður frumsýnd í formlegri athöfn fimmtudaginn 27. október nk. kl. 19.30, á undan Kvöldkirkjunni sem hefst kl. 20:00. Sjón er sögu ríkari því skipt hefur verið um alla lýsingu kirkjunnar, jafnt innan- sem utandyra.

Öll lýsing er nú með LED-ljósum sem spara orku um leið og nýja lýsingin gefur fjölda kosta og val á öllum regnbogans litum í lýsingu á kirkjunni. Í ljósablessuninni fá kirkjugestir sýnishorn af þeim möguleikum sem nýja lýsingin hefur i för með sér í kirkjuskipi og allt í kringum kirkjuna. Allir eru velkomnir!

Það var lýsinga- og raflagnahönnunarfyrirtækið Liska sem hannaði lýsinguna. en Fagraf hélt utanum framkvæmdina. Lagt var upp með að lýsingin drægi fram og undirstrikaði formfagra hönnun Hallgrímskirkju. Á vef Lisku segir meðal annars: „Kirkjan er einstaklega formfögur og einkennist af bogadregnum línum sem teikna sig frá gólfi upp í skurðpunkt í toppi hvelfinga. Samspil lýsingar og arkitektúrs undirstrikar form og rýmistilfinningu. Með lýsingunni er nú hægt að vinna með litarhitastig, liti og styrk til að auka dýpt, hækka eða breikka kirkjuskipið, eða einfaldlega mála kirkjuna með ljósi til að skapa einstaka upplifun.“

Verið hjartanlega velkomin!

Myndir: Örn Erlendsson