Orgelsumar í Hallgrímskirkju

Magnús Ragnarsson organisti í Langholtskirkju og söngkonan Lilja Dögg Gunnarsdóttir flytja verk eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Jehan Alain og einnig verður frumflutt verk eftir Magnús sjálfan.

Miðasala verður við innganginn og einnig fást miðar á https://tix.is/is/event/13611/

Verð 2000 kr

Magnús Ragnarsson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Tónlistarháskólann í Gautaborg. Þá stundaði hann framhaldsnám í kórstjórn hjá Stefan Parkman við Háskólann í Uppsölum. Magnús starfar sem organisti í Langholtskirkju og stjórnar Kór Langholtskirkju, sem er 32 manna kór með menntuðum tónlistarmönnum. Hann hefur stjórnað Söngsveitinni Fílharmóníu frá janúar 2006, Hljómeyki árin 2006–2012 og Melodiu-Kammerkór Áskirkju 2007-2017. Hann kennir kórstjórn við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands og starfar sem kórstjóri við Íslensku Óperuna.

Hann hefur stjórnað ballettum og kammeróperum, stjórnað Lutoslawski-Fílharmóníuhljómsveitinni í Póllandi og átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Magnús hefur unnið til verðlauna með kórunum sínum í Florilège Vocal de Tours, Llangollen í Wales, Flórens og Arezzo á Ítalíu og Béla Bartok-kórakeppninni í Ungverjalandi þar sem hann fékk sérstök verðlaun fyrir besta flutning á nútímaverki. Hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2015 fyrir flutning á Þýsku sálumessunni eftir Brahms og 2016 var hljómdiskur Melodiu undir hans stjórn tilnefndur sem plata ársins.

Lilja Dögg Gunnarsdóttir, alt, lauk burtfarar- prófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2010 undir handleiðsu Elísabetar F. Eiríksdóttur og Mastersprófi frá LHÍ í Sköpun, miðlun og frumakvöðlastarfi. Hún starfar eingöngu við tónlist og kemur reglulega fram sem einsöngvari í ýmsum verkum og verkefnum, dæmi væru aðalsöngkonan í Umbru og þar einnig útsetjari, flautu- og slagverksleikari. Umbra sérhæfir sig í fornri tónlist í eigin útsetningum og hefur gefið út fjórar plötur - þrjár tilnefndar til íslensku tónlistarverðlaunanna. Platan “Úr myrkrinu” hlaut svo verðlaunin sjálf sem plata ársins 2018. Fleiri dæmi um verkefni væru alt sóló og kórsöngur í Sænsku messunni eftir Johan Helmich Roman með Cantoque Ensemble, Nylandia barokksveitinni og hljómsveit Peter Spissky í Kaupmannahöfn 2021 og Skálholti sama ár. Jóhannesarpassíu með Cantoque 2019, alt sóló í Schnittke Requiem (2019) í Hallgrímskirkju, einsöngur í Bach kantötu með Cantoque í Skálholti, (2018), alt sólóisti Vesper Rachmninoff (2018), Vivaldi kantötu með Barokkbandinu Brák, flutning á Blóðhófnir, eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, á listahátíð 2016. Lilja Dögg er virk í kórastarfi og ásamt því að vera meðlimur í sönghópnum Cantoque syngur hún í Schola Cantorum sem hlaut íslensku tónlistarverðlaunin árið 2017 fyrir plötu sína Mediatio. Þá hefur hún starfað við útfararsöng síðastliðin ár. Einnig hefur hún tekið þátt í uppfærslum íslensku óperunnar, nú síðast á “Brothers” eftir Daníel Bjarnason. Hún stjórnar, ásamt Hildigunni Einarsdóttur, Kvennakórnum Kötlu sem hefur getið sér gott orð undanfarin misseri. Ennfremur stjórnar hún kór Kvennaskóla Reykjavíkur.