Orgelsumar í Hallgrímskirkju - Lokatónleikar 2022

Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju ásamt Cantores Islandiæ og karlaröddum úr Kór Hallgrímskirkju undir stjórn Ágústs Inga Ágústssonar koma fram á lokatónleikum Orgelsumars í Hallgrímskirkju 2022 og flytja tónlist undir yfirskriftinni Orgel & Gregorsöngur eftir Duruflé, Pál Ísólfsson, Franck og Tourmermire á lokatónleikum Orgelsumars í Hallgrímskirkju.

Hægt er að nálgast miða við innganginn og á https://tix.is/is/event/13609/

Miðaverð 3000 kr.

Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.

Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.

Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum norðurlöndunum, í Evrópu og norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.

Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.

Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Listamannalaun 1999 og 2015.

Sönghópurinn Cantores Islandiae var stofnaður í Reykjavík haustið 2018 af Ágústi Inga Ágústssyni og Gísla Jóhanni Grétarssyni. Hópurinn leggur áherslu á gregorssöng í verkefnavali sínu en einskorðar sig þó ekki við hann. Stjórnandi kórsins er Ágúst Ingi, en hann hefur lagt stund á gregorssöng um nokkurt skeið. Ágúst Ingi starfaði sem organisti hjá kaþólsku kirkjunni í Hafnarfirði 1993-2000 og var stjórnandi gregorskórsins Cantores Iutlandiae í Danmörku árin 2011-2017.