Passíusálmalestur á Föstudaginn langa

PASSÍUSÁLMALESTUR - 

Lestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar fer fram í Hallgrímskirkju

Öll velkomin í Hallgrímskirkju til íhugunar.
Umsjón með flutningum í Hallgrímskirkju hefur Steinunn Jóhannesdóttir.
 
Lestur:
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, dr. Margrét Eggertsdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir, Einar Örn Thorlacius og Steinunn Jóhannesdóttir.
 
Tónlist:
Kammerkvartettinn
Steinar Logi Helgason, organisti
Björn Steinar Sólbergsson, organisti

PASSÍUSÁLMAR Hallgríms Péturssonar verða að vanda fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa, milli 13.00 - 18.30 sem að þessu sinni ber upp á 29. mars. Flytjendur sálmanna eru eftrtaldir: Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, dr. Margrét Eggertsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir sem báðar eru bókmenntafræðingar og sérfræðingar á Stofnun Árna Magnússonar, Einar Örn Thorlacius, lögfæðingur, virkur lesari í messuhópi kirkjunnar og Steinunn Jóhannesdóttir, leikstjóri og rithöfundur sem hefur umsjón með flutningnum.
Konurnar fjórar hafa setið í nefnd sem falið var að velja úrval sálma og kvæða Hallgríms Péturssonar í tvímálaútgáfu á íslensku og ensku sem kemur út síðar á árinu. En í ár er þess minnst að 350 ár eru liðin frá andláti skáldsins 27. október 1674.

Á meðfylgjandi mynd sjást lesararnir mættir til æfingar framan við Hallgrímskirkju. Þau eru frv. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Eina Örn Thorlacius, Svanhildur Óskarsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir. Ljósm: Hilmar Þorsteinn
Þess má geta að Margrét Eggertsdóttir er um þessar mundir að lesa Passíusálmana í Ríkisútvarpinu Rás 1. Upptakan er frá árinu 2006, og var gerð ári eftir að hún varði doktorsritgerð sína um Barokkmeistarann Hallgrím Pétursson.

Í tilefni minningarársins verður tónlist fléttuð inn í sálmalesturinn með veglegum hætti.
Kammerkvartettinn og Steinar Logi Helgason flytja sjö upphafsvers Passíusálmanna í raddsetningum Smára Ólasonar.
Björn Steinar Sólbergsson leikur orgeltónlist tengda Passíusálmalögunum og frumflytur ma. tvo nýja sálmforleiki eftir Arngerði Maríu Árnadóttur og Hildigunni Rúnarsdóttur.

Gömlu lögin og raddsetningar Smára Ólasonar
Smári Ólason (1946-2023) tónlistarfræðingur vann ómetanlegt starf með rannsóknum sínum á lagboðum passíusálmanna og hvernig sálmalögin þróuðust í meðferð þjóðarinnar yfir í það sem við köllum í dag gömlu lögin.
Árið 2015 kom út hjá Skálholtsútgáfunni kórútsetningar Smára á Passíusálmunum. Kammerkvartettinn og Steinar Logi Helgason flytja sjö af útsetningum Smára.
Útsetningar Smára eru einstaklega smekklegar og hæfa hinum þjóðlega, forna andblæ einkar vel.

Í ár eru 36 síðan Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru fyrst fluttir í heild sinni á föstudaginn langa í Hallgrímskirkju. 
Hér má sjá grein frá því í fyrra en þá hafði flutningur Passíusálmanna farið fram nánast óslitinn í 35 ár.

Hallgrímskirkja - Þinn staður á föstunni!