Allt hefur sinn tíma

30. september 2021
Prédikanir og pistlar

Prédikun séra Eiríks Jóhannssonar sunnudaginn 26. septemberNáð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Við heyrðum hér áðan lesin kunnugleg orð. Einkum í fyrri ritningarlestri dagsins, úr Prédikaranum. Öllu er afmörkuð stund. Allt hefur sinn tíma. Við höfum áreiðanlega flest tekið okkur eitthvað svipað í munn. Ekki er hins vegar víst að allir hafi áttað sig á því hvaðan það kemur. Það er umhugsunarvert því það er örugglega ekki það eina sem við notum og hugsum um sem á sínar rætur í hinni helgu bók. Biblían og boðskapur hennar hefur verið miðlægur í táknheimi íslensku þjóðarinnar í þúsund ár. Með kristninni komu skólar, lestur og skrift inn í landið; tónlist og alls kyns fræði. Þó liðin séu þúsund ár þá var Ísland á þeim tíma að tengjast þúsund ára gamalli og öflugri stofnun sem breiðst hafði út um alla evrópu og víðar. Hafði öflugan innri strúktúr og skipulag, fjármuni og völd.

Þannig má fullyrða að það sem kallað er íslensk menning eigi í raun að miklu leyti uppruna sinn í öðrum löndum, einkum og sér í lagi úr hinum kristna arfi, síðan hefur það hingað flutst og þróast í takt við lífsbaráttu  og veðurfar þessarrar afskektu eyju langt út í hafi.

En þá má líka minnast þess að rannsóknir á textum sjálfrar biblíunnar benda til þess að þeir hafi verið langan tíma í mótun og margt sem þar kemur fyrir eigi rót sína að rekja til sagnaminna sem lifað hafi kannski um hundruð ára eða jafnvel mun lengur í munnlegri geymd.

En hvaða máli skiptir þetta fyrir okkur sem nú lifum er þetta ekki bara einhver gömul úrelt þekking sem hefur ekkert með líf nútímamannsins að gera? Það er að minnsta kosti tvennt sem þetta segir okkur um bibilíuna og trúna á Guð. Í fyrsta lagi það sem einnig segir á einum stað Prédikaranum  að ekkert er nýtt undir sólinni. Maðurinn hefur frá örófi alda verið að fást við sjálfsmynd sína og leitast við að skilja sig og umhverfi sitt. Á þann hátt  geymir biblían vitneskju frá örófi alda um þessa glímu og vitund mannsins um Guð. Sömuleiðis gefur það okkur vísbendingu um að textar biblíunnar eru  eða voru öldum saman, einkum fyrir daga prentlistarinnar, eins konar lifandi skjal sem var í stöðugri þróun í takt við nýja tíma og nýjar aðstæður. Duttu semsagt ekki alskapaðir niður af himni.

Gerir þessi ályktun um ritninguna, hina heilögu ritningu það að verkum að hún verði eitthvað minna virði sem trúarrit. Í mínum huga alls ekki heldur miklu fremur eru þá textar hennar með sína flóknu sköpunarsögu vísbending um glímu, hina sístæðu glímu mannsins við guð sinn löngun til að skilja og nálgast guð og vilja hans. Tekur síðan ávalt einhverjum breytingum á hverjum nýjum tíma.

Prédikarinn telur upp  ótalmargt sem hafi sinn tíma og niðurstaðan kannski þessi að það er margt sem við þurfum að sinna, eiginlega hvort sem það er okkur ljúft eða leitt. Öll höfum við skyldum að gegna. En niðurstaðan er samt sú að það er líka Guði velþóknanlegt að maðurinn setjist niður og gleðji sig í mat og drykk.  Og þetta held ég að við þekkjum öll vel á eigin skinni að sjaldan er betra að setjast að góðum málsverði en einmitt að loknu góðu dagsverki.

Postulinn ræðir um hið heilaga og segir eiginlega að ekkert sé í raun vanheilagt í sjálfu sér og þar með kannski um leið ekkert í sjálfu sér heilagt en hins vegar gerum við margt heilagt. Helgidómur sem reistur er til trúariðkunar helgast er svo má segja af notkuninni og því að hann er frátekinn til þeirra nota. Má þá einu gilda hvort hann er stór eða smár.

Postulinn ræðir um mat og það að margir hafa í heiðri ýmsar reglur um hvað megi borða og hvað ekki. Þetta þekkjum við sannarlega í nútímanum þegar æ fleiri hafa, ef svo má segja sinn eigin matarkóða. Sumir svo strangan að jaðrar við trúarbrögð.  Mér finnst postulinn eiginlega vera að segja við okkur að við skyldum ekki gera mikið úr eða láta steyta á steini vegna einhvers af þessu tagi. Þetta eru smámunir í samanburði við það að iðka frið og kærleika manna í millum. Við eigum að geta umborið mismunandi siði og venjur á sem flestum sviðum þótt þeir séu ekki endilega okkar siðir.

Svo má líka nefna að mörgum er um þessar mundir náttúran orðin þeim heilög, jafnvel hin eyðilega túndra á hálendi Íslands þar sem fátt er að sjá nema sanda og grjót en samt stöku smáblóm, geldingahnapp jafnvel melgrasbrúsk.  Fólk kemur um langan veg til að  eiginlega að tilbiðja þessa ósnortnu auðn. Hún er á sinn hátt vitnisburður um veröld sem var, í heimi sem maðurinn hefur að heita má lagt allan undir sig. Mótað formað og breytt eftir eigin höfði og þörfum.

Postulinn segir okkur að hið eina sem raunverulega sé heilagt það sé hinn óáþreifanlegi andi friðar og kærleika sem trúin á Jesú Krist blæs okkur í brjóst.

Allt sem hér hefur verið sagt leiðir okkur inn í efni guðspjallsins þar sem Kristur bendir okkur á hið sístæða en samt oft á tíðum erfiða verkefni að geta umborið og þolað og átt eðlilegt samfélag við fólk sem er á einhven hátt öðruvísi en við. Það hneykslaði betri borgarana á dögum Jesú að hann skyldi sitja til borðs með þeim sem þeir höfðu skömm á. Við sjáum og vitum að það var og er enn í gildi að sækjast sér um líkir. Við sjáum það jafnvel hér í kringum okkar að hverfi og jafnvel heilu sveitarfélögin hafa byggst upp af fólki með svipaðan bakgrunn, menntun og tekjur. Við hins vegar sjáum það allt í kringum okkur í veröldinni að stærsta verkefnið og áskorunin fyrir mannkynið er að læra að lifa í sátt við annað fólk, fólk sem hefur aðra sýn og siði.

Nú eru kosningar afstaðnar og nú verður það verkefni þeirra sem kosin hafa verið að tala saman og finna leiðir til að mætast, skilgreina þannig hvað sé mikilvægast og hvað megi bíða. Semsagt að hlusta, reyna að skilja og finna leið til að geta haldið áfram á sem réttastri braut. Finna leið sem þjóðinni í heild sé til heilla.

Svo má svo sem líka velta því fyrir sér sem sumir, jafnvel fræðimenn, halda fram að kosningar séu eiginlega ein mesta blekking samtímans og til þess gerðar að telja almenningi trú um að þeir hafi eitthvað um það að segja hvernig landinu þeirra sé stjórnað, meðan staðreyndin sé sú að hin raunverulegu völd séu annars staðar.

Kristur settist til borðs með þeim sem voru á jaðri samfélagsins, ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.

Þetta er að mínum mati brýning til kristins fólks á öllum tímum, brýning til kirkna sem vilja vera trúar grundvelli sínum að taka sér ávalt stöðu við hlið þeirra sem af einhverjum sökum standa höllum fæti og þurfa á aðstoð að halda. Í því samhengi mætti segja að hver sú kirkja sem leitast við að gera þetta, hún skilgreini sig ávalt í stjórnarandstöðu, í varðstöðu gagnvart hag þeirra sem ekki hafa kraft til að verja sig sjálfir. Leitast við að færa þeim lækningu sem á einhvern hátt eru ekki heilir.

Kirkjan á ekki að vingast við valdið hún á að vera á varðbergi gagnvart því.

Það er því gott að enda þessa hugleiðingu á niðurstöðu Páls postula í  pistli dagsins:

Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. Hver sem þannig þjónar Kristi er Guði velþóknanlegur og í metum hjá mönnum.
Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið
.

Já keppum eftir því sem til friðar heyrir, leggjum rækt við þann forna menningararf sem stefnir huga og hjarta í þá átt  að leggja því góða lið á allan hátt.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda amen.

Meðtak postullega blessun: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum amen.

Lexía: Préd 3.1-13
Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

Pistill: Róm 14.14-19
Það veit ég með fullri vissu í trúnni á Drottin Jesú að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér nema þá þeim sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt. Ef bróðir þinn eða systir hryggist sökum þess sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni sem Kristur dó fyrir.
Látið því ekki hið góða sem þið eigið verða fyrir lasti. Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. Hver sem þannig þjónar Kristi er Guði velþóknanlegur og í metum hjá mönnum.
Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið.

 

 
Mynd EJ frá útilaltari á Kjalarnesi.