Guð er Bonus

13. febrúar 2022
Prédikanir og pistlar, Fréttir, Helgihald, Kirkjustarf
Mynd SÁÞ af bænatré í fjölskyldumessu

Prédikun Sigurðar Árna, 13. febrúar 2022.

Hvaða ljóðabók var söluhæst síðustu árin? Það er sálmabók þjóðkirkjunnar. Þar finna allir örugglega eitthvað við hæfi og sér til gagns. En þó margt sé í sálmabókinni er alveg áreiðanlegt, að þar auglýsir ekkert fyrirtæki á Íslandi. Ekkert stórfyrirtæki hefur komið að óbeinni auglýsingu í einhvern sálminn, ekki flugfélög, útgerðarfélög, verslunarkeðja eða stórfyrirtæki. En þó engar séu auglýsingarnar eða nafn kostunarfélags er þó eitt íslenskt fyrirtæki nefnt í einum sálmi sálmabókarinnar, fyrirtæki sem margir versla við og sumir í hverri viku ársins. Hvaða fyrirtæki, hvaða verslun, skyldi vera nefnd í sálmbók þjóðkirkjunnar? Meira um það síðar.

Faðir smásögunnar

Jesús er frægur fyrir margt. Hann var kunnur fyrir virðingu fyrir utangarðsfólki. Hann var alræmdur í sjálfhverfu karlaveldissamfélagi fortíðar fyrir að virða manngildi kvenna, útlendinga, barna og erlendra hermanna setuliðs. Hann varð frægur fyrir frábærar ræður, merkilega siðfræði, guðstraust, leiðtogahæfileika, spekiorð og djúpsæknar bænir. Svo er hann auðvitað kunnastur fyrir að hegða sér allt öðru vísi en dauðum mönnum var og er skylt og tamt. Hann fylltist lífi efir að hafa legið í gröf sinni í meira en sólarhring. Flest sem Jesús sagði var í frásögur færandi. Eitt af því, sem mörgum yfirsést, er hve frábær smásagnahöfundur hann var. Líkingasögurnar, sem hann sagði, eru auk alls annars bókmenntaperlur, sem enginn bókabéus lætur fram hjá sér fara.

Þrúgur tíndar

Saga dagsins er ein af þessum dásemdarsögum. Aðstæðurnar voru þær, að vinir Jesú, sem fylgdu honum, voru að velta vöngum yfir launum sínum og spurðu áleitinna spurninga eins og: Heyrðu Jesús. Hvað græði ég nú á öllu þessu brölti með þér, öllu veseninu, fjarri einfaldri hamingju venjulegs fólks? Þeir voru reyndar skynugir og vissu, að fé og frami var ekki á launamiða guðsríkisins. En hvað var það þá? Til að svara Pétri og hinum vinunum sagði Jesús þeim sögu um víngarðseigandann. Það var komið að uppskerutíma, sem er reyndar stórkostlegur tími á öllu Miðjarðarhafssvæðinu, þegar stórir flotar af fólki halda út á akrana til að týna þrútin berin. Ég hef upplifað slíka hátíð í Toscana á Ítalíu og hef séð hve gleðin er mikil, bros í augunum og alvöru hátíð. Réttarstemming í íslenskum sveitum jafnast við slíkt. Líka þegar okkar lið í íþróttum ná á toppinn. Jesús segir frá því, að víngarðseigandinn hafi ráðið til sín vinnufólk á mismunandi tímum, þá fyrstu í dögun, síðan fleiri þremur tímum síðar. Þannig hélt hann áfram allan daginn og þeir síðustu komu til starfa um það leyti sem verkum dagsins lauk. Þeir fyrstu fengu loforð um ákveðið og eðlilegt dagkaup, sem þeir voru fullsáttir við. Svo var byrjað að borga laun í verklok. Þeir, sem síðastir komu, fengu óskert dagkaup og þá þótti þeim sem fyrr komu útlitið gott og ímynduðu sér, að þeir hlytu að fá margfalt kaup á við þá, sem síðastir komu. En þegar allir höfðu fengið sitt kaup voru allir með sömu upphæð í hendi. Þá byrjaði möglið og þeir, sem höfðu puðað daglangt, þótti að þeir hefðu verið órétti beittir.

Órétti beittir?

Víngarðseigandinn tók eftir bullandi reiðinni og spurði hvort þeir hefðu ekki fengið það, sem um var samið? Jú, þeir viðurkenndu það. En þeir voru bara ósáttir við, að hinir hefðu fengið jafn mikið en hefðu þó unnið minna. Hver getur ekki sett sig í spor mannanna? Samanburður er meginþáttur allra kjarasamninga. Það er í samræmi við almenna réttlætisvitund, að laun eigi að vera í hlutfalli við vinnuframlag. En víngarðseigandinn fór allt öðru vísi að, minnti á að hann ætti þetta fé og mætti borga hinum síðustu jafn mikið og hinum. Hann væri ekki að brjóta neina kjarasamninga þótt hann borgaði þeim meira en þeir hefðu unnið fyrir. „Ég er góður” sagði hann. Svo kom hið áleitna en torskilda, að hinir síðustu verði fyrstir.

Það eru til ýmsar skýringar á merkingu sögunnar. Tilgangur Jesú væri að gera upp við forréttindahyggju samferðamanna sinna. Hann vildi benda þeim á, að þeir sem hefðu lengi verið samferðamenn Guðs í veröldinni fengju ekki neinn aukabónus í himnaríki vegna tímalengdar. Þau, sem hefðu slegist í hópinn á síðustu stundu, væru jafnmiklir Guðsvinir og hin, sem hefðu verið það alla ævi. Trúarleg stéttaskipting er ekki til í kenningu Jesú. Forréttindamenn í himnaríki eru ekki til þó menn vilji gjarnan búa til virðingastiga þar líka og verða trúarleg yfirstétt eða kirkjueigendafélag. Virðing, laun og gildi eru öðru vísi í hinu andlega ríki en í veröldinni. Stéttakerfi er ekki hægt að varpa yfir á himininn. Ekkert kvótakerfi þar eða kvótakóngar. Menn eiga enga kröfu á hendur Guði. Verk okkar, líferni, vitund okkar um eigin gæði verða ekki yfirfærð yfir í himneskan gjaldmiðil. Það er ekkert veðkall til á hendur Guði og lífeyrissjóði eða eigum við að segja lífernissjóði himinsins. Við byggjum ekki upp kröfugerð og útborgun hinum megin eins og við byggjum upp lífeyri hinum megin við starfslok okkar. Þetta benti siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther á og öðrum betur.

Laun himins

Hvað segir þá sagan? Smásöguhöfundurinn Jesús kunni að segja sögu á mörgum plönum og hana er hægt að túlka í ýmsar áttir. Gagnvart Símoni Pétri í samningahrotu um eilífðarumbun er svarið skýrt. Laun himinsins eru söm og jöfn fyrir alla. Engu skiptir hvort menn hoppa á eilífðarvagninn snemma eða seint, allir ná sama marki. Þetta voru mikilvæg skilaboð í frumkirkjunni. Menn skyldu ekki setja sig á háan hest þótt þeir hefðu snemma orðið fylgjendur Jesú. Þetta varðar síðan alla kirkjumenn. Broddur Jesú er gegn kirkjueigendum allra tíma. Enginn er yfir annan settur þegar eilífðarlaunum er útdeilt, allir eru jafnir. Síðan er líka elskudjúp í þessari sögu. Enginn er of seinn eða útilokaður frá guðsríkinu hvar svo sem menn hafa verið, hvað sem þeir hafa gert og hversu djúpt þeir hafa sokkið. Í sögum Jesú er djúp og einbeitt umhyggja gagnvart fólki. Enginn er settur hjá, guðsríkið er allra.

Menn hafa löngum velt vöngum yfir hverjir komist til Guðs, hverjir verði hólpnir. Hvað verður um óskírt barn sem deyr? Margir hafa grátið yfir þeirri spurningu. Hvað verður um þau, sem tilheyra öðrum trúarbrögðum? Spurningar af þessu tagi eru margar. Þegar við svörum er mikilvægt, að við stöldrum við og spyrjum okkur hvers konar Guð við trúum á og hvers konar Guð Biblían túlkar og Jesús Kristur birtir okkur. Dæmisagan um gjafmilda bóndann er um Guð, sem útdeilir jafnt þeim sem koma seint og hinum sem koma snemma. Við getum séð í henni og ýmsum öðrum sögum Jesú túlkun á elskuríkum Guði, sem er mun stærri og meiri en smáguð ættbálks eða þjóðar eða guðfræðilegrar einsýni eða bókstafshyggju. Sá Guð er skapari alls sem er, djúp allrar elsku, ljós alls ljóss, brunnur fegurðarinnar, forsenda manngildisins, hinn mikli húmoristi, sem skapar litríka fjölvíddaveröld og elskar þig heitt og ákaflega.

Upprisa allra – vonarmál trúmannsins

Kristinn maður, sem trúir á slíkan stórguð, hlýtur að vona ákveðið, að allir megi njóta himinvistar, óháð ætt, uppruna og fyrri störfum! Það er ekki til nein kirkjuleg dogma, kenning, um að allir hljóti óhjákvæmilega að komast til himins, en kristin kirkja biður hins vegar fyrir upprisu allra. Múslimum, hindúum, kristnum, trúlausum og trúarveikum mætum við með þeirri bæn til Guðs, að Guð geymi hann, hana, já okkur öll. Þetta er hin vonarríka afstaða. Þetta er líka ástæða þess, að maður sem tekur Jesú Krist alvarlega getur ekki leyft sér að trúa því að heimur fari versnandi, að allt fari á versta veg, að öllu fari aftur, að lífið sé leiðinlegt. Kristindómur bannar mönnum ekki að gagnrýna og greina milli góðs og ills. En kristnin bannar mönnum, að loka augunum fyrir fegurð, möguleikum, nýsköpun og gleði og að Guð er frábær.

Afstaða hins óvænta

En hvernig var með íslenska fyrirtækið, sem er nefnt í sálmabókinni? Áður en gátan er leyst er þarft að við hugsum um hvað einkennir Jesú Krist, sögur hans, afskipti af fólki og veru hans. Hann var maður hins óvænta. Hann hegðaði sér oftast öðru vísi en búast hefði mátt við. Hann bar ekki bara virðingu fyrir þeim, sem nutu almennrar virðingar, heldur bar líka óvænt virðingu fyrir þeim, sem voru fyrirlitnir. Allir menn áttu möguleika í samskiptum við Jesú. Hann var meistari hinna óvæntu endaloka í smásögum sínum. Sneri jafnan uppá sögurnar og jafnvel á hvolf. Sögur hans enda gjarnan með óvæntu móti eins og brandarar. En hnykkurinn eða snúningurinn í lokin var það, sem Jesús vildi að yrði mönnum til íhugunar og yrði til að menn hugsuðu mál sín að nýju, afstöðu, trú og siðfræði. Jesús sagði ekki aðeins sögur hins óvænta heldur var slíkur sjálfur. Upprisa hans var ótrúleg, hið algerlega óvænta en alveg í samræmi við allt sem hann var og sagði. Allt var þetta til að opna líf fólks, efla það og bæta.

Bonus - Guð

Þá er komið að fyrirtækinu sem nefnt er óvænt í sálmabókinni, söluhæstu ljóðabók ársins. Það er ótrúlegt nokk - bonus. Það er satt, að bonus kemur raunverulega fyrir í sálmi sem að vísu er á latínu. Þar segir

Confitemini Domino
quoniam bonus.
Confitemini Domino.
Alleluia!

Og þýðingin er svona:

Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor,

því þú ert góður.

Þökk sé þér, ó, Guð

Drottinn vor. Hallelúja!

Ég spurði Jóhannes Jónsson, sem stofnaði Bónus, hvort hann vissi að Bónus teygði anga sína inn í sálmabók þjóðkirkjunnar? Hann viðurkenndi hissa, að hann hefði ekki gert sér grein fyrir að ítök Bónuss væru svona gífurleg. Það væri ekki skrítið, að stjórnmálamenn yrðu smeykir þegar jafnvel sálmabókin væri farin að boða bonus! En hvað merkir bónus í hinu trúarlega samhengi? Það er ekki bara kjarabót, sérstakt happ, lottóbónus eða launaplús, heldur merkir það góður. Guð er bónus, Guð er góður. Þess vegna er þakkað í sálminum. Sjálfsagt er að þakka ef verslunin Bónus býður lægsta verðið. En það eru ekki eiginlegu bónusarnir. Það er meira segja ekki hinn eiginlegi bónus lífsins að hækka launin. Það er ekki bónus heldur réttlætismál að laun séu góð. Bónus lífsins, hver er hann? Hann verður ekki keyptur í neinni búð. Kristinn maður veit að bónusinn er Guð og sálmurinn í sálmabókinni segir að Guð sé góður. Guð á fleiri ráð en við þekkjum. Lífeyrissjóður himinsins er ekki gulltryggður heldur guðstryggður, sem er betri öðrum tryggingum. Meginstarfsregla þess sjóðs er gjafmildi. Greiðslur eru ekki samkvæmt innlögn heldur umhyggju Guðs og þörf manna. Guð hefur sjálfur lagt allt til hins mikla sjóðs, lífið í Jesú Kristi, sem er höfuðstóllinn sjálfur. Guð er gjafmildur, gefur lífið, af því að Guð er bonus, Guð er góður. Engir peningar, engar kjarabætur, enginn hagnaður þessa heims er nokkuð í samanburðinum við þann bónus, það er bónus lífsins.

A-röð Lexía: Jer. 9.23-24. Pistill: 1Kor. 9.24-27. Guðspjall: Matt. 20.1-16