Heiðurssæti

20. október
Prédikanir og pistlar

Biðjum
Vertu Guð faðir minn
í frelsarans Jesú nafni
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni. (HP)
Amen.

Náð sé með ykkur og friður frá honum sem er, var og kemur. Amen.
Örlítið feginsandvarp fer um jarðarkúluna okkar. Kannski er friður í sjónmáli, og þó ekki, því enn er allt á tjá og tundri í veröldinni og rafmögnuð, tæknivædd flygildi vekja okkur ótta um leið og fréttamyndir sýna fólk snúa heim til hruninna húsa og heimili þeirra eru rústir einar. Þúsundir bíla streyma með vistir. Samhjálpin hefur ekki týnst í átökum stríðsins. Samúðin er lifandi og margir tilbúnir að rétta fram hjálparhönd.
Kannski slá sér einhverjir á brjóst að vera í heiðurssætinu í þessari framvindu en er ekki auðmýktin samt lykilorðið. Auðmýkt sem kyngir stolti en ber í sér elsku og réttlæti. Auðmýkt.
Hvernig fer það í munni undanfarinna ára, áratuga, árþúsunda. Þetta orð hefur verið eins og ánauðarok og aðeins hluti mannkyns átti að sýna auðmýkt. Sérstaklega þau jaðarsettu áttu að sýna auðmýkt með því að beygja sig undir ok einhvers annars. Auðmýkt sem stundum verður eins og meðvirkni gagnvart óréttlátu samfélagi.

En í dag dveljum við innan veggja heimilis með frelsaranum – heimilið sem er staður hjartans, samfélags og öryggis. Hvíldardagur og samfélagið í kringum frelsarann hefur lagst í dvala. Þá hittum við hann innan veggja heimilis yfir máltíð. Ekkert alþýðuheimili þarna í myndinni heldur heimili eins af höfðingjum.
Hann lendir í umræðu um hvíldardaginn. 
Fyrst á ekki að gera neitt á hvíldardegi, eftir fyrirmynd skaparans sem hvíldi sig hinn sjöunda dag. Getið þið þá ekki sæst á að það þarf samt að bjarga lífi manna eða skepna?
Hver getur ekki verið sammála um það en menn höfðu gætur á honum.
Þeir – höfðingjarnir og húsráðandi fylgdust með honum, reyndu að finna glufurnar til að seilast í líf hans og kenninguna sem þeim líkaði ekki.
Of hliðhollur frelsinu, fólkinu, hinu brotgjarna, ófullkomna. Já, gáum að honum en svo eins og fléttan snýst við –
Nú er það Jesús sem er að rýna í samfélagið við borðið. Skemmtilegt hvernig sögurnar verða stærri, merkingabærari.
Jú ef við höldum áfram með pælingar Jesú þá bendir hann fyrst á að gestirnir ættu að skoða – bíddu, hvaða sæti velur þú þér? Klifrar upp heiðursstigann og reynum að koma þér í mjúkinn, sitja hjá þeim fínu.

Það opnast fyrir okkur víðáttan við að eiga við orðin í dag. Eins og að fara höndum um fágæti, slíkt er innihaldið góði söfnuður - við horfum á heiminn úr hefðarsæti og það skiptir máli hvert við horfum og hvernig úr okkar góðu sætum.
Auðmýkt er annað en auðmýking, er það ekki? Það sem við sýnum er annað en að auðmýkja fólk, niðurlægja.
Dveljum við auðmýktina sem gæti verið mýktin sem ætti að fara um augu þeirra sem í hefðarsætunum sitja og Jesús er tíðrætt um í guðspjalli dagsins. Hvernig komumst við best og helst þangað? Jú, með því að sýna auðmýkt, umburðarlyndi, réttlæti og visku.

Jú, ef við höldum áfram með pælingar Jesú þá fyrst bendir hann á að gestirnir ættu að skoða – bíddu, hvaða sæti velur þú þér? Klifrar upp heiðursstigann og reynum að koma þér í mjúkinn, sitja hjá þeim fínu.

Það opnast fyrir okkur víðáttan við að eiga við orðin í dag. Eins og að fara höndum um fágæti, slíkt er innihaldið

Í nýrri ljóðbók Jóns Kalmans “Þyngsta frumefnið”
yrkir hann um sorg, söknuð, elskuna, hamfarahlýnun og svo líka auðmýktina.

Við skulum aðeins líta við hjá honum í ljóðinu
“Jafnstórt og afmælisblaðra og óvissan"

Sem hefst á orðunum:
“Ótrúlegi alheimurinn okkar” um skammtafræði og örbylgjuklið og fyrstu sekúndurnar í lífi alheimsins…
Svo verður ljóðið langt og fallegt
og viðfangsefnið m.a. um undur að mannsandinn, gáfurnar hafa kannski ekki borið okkur svo langt á þúsundum ára.
“Annað heilahvel okkar
hefur mátt guða
hitt er skelfingu lostin manneskja
við varðeldinn
fyrir tíu þúsund árum-

Fjarlæðgin þar á milli
er að tortýma okkur.

Rifjum aðeins upp um heilahvelin..
Rökhugsunin og reiknikúnstin býr öðru megin
en tilfinningar og hugmyndaflug í hinu heilahvelinu.
Þetta eru engin þrautkönnuð vísindi en kunnugleg pæling og burtskýring oft en líka tilraun til skýringa og það finnum við í ljóði Jóns Kalmanns.

“Okkur var gefin greind guða,
svo óskapleg að hún tók yfir
annað heilahvelið
og úthýsti þar auðmýkt mannsins
sem, í samanburði við guði,
lifir skemur en fluga, er ljósbrot,
flís af myrkri, síðan ekkert meir;

Þess vegna þurftum við tvö heilahvel.

Það síðara óx af auðmýktinni, ástinni, brosinu,
gleðinni yfir kaffibollanum, afmælisblöðru,
sonar okkar …-“

Pæling sem dregur okkur aftur í hús höfðingjans og dæmisöguna
Í veisluna þar sem margir vildu vera í nærveru þeirra sem mest máttu sín, töldu sig kannski hafa allt – "greind guða" og svo þau sem voru óttaslegnar manneskjur.
Þangað fór Jesús. Þar sem fólk naut samveru, kom saman, nærðist og talaði saman. Þar horfði hann á, stúderaði mannlegt eðli því hann var kominn til að hitta manneskjur en ekki deila guðlegri greind.

Samtalið við borðið, þríhliða eða U laga-borðið, er ekki samtal þeirra lágt settu, fátæku, kvenna eða barna heldur samtal fyrirmanna í samtíð Jesú Krists.
Þess vegna getum við talað um auðmýktina sem margræða andlit trúarinnar.
Ekki að líta sig smáum augum heldur að horfa við veröldinni af elsku, réttlæti og visku.
Hér er ekki verið að kasta orðum til þeirra sem minna áttu og höfðu heldur til fyrirfólksins, sem var í húsi höfingjans.

Já, auðmýktin er ekki að beygja sig undir ok valdsins heldur að horfa lengra, sjá víðar og vera tilbúin að nota viskuna sem býr í því að valdeflast í elsku til náungans. Á því þreytist sá sem okkur elskar aldrei á að gera, Jesús frelsari heimsins.
Kristur sem tók hlutverki sínu af gleði og dvaldi ekki í bergmálshelli fræðimanna og fyrirfólks. Hann fór þangað til að ögra, skoða, eiga samtal til að breyta og umbylta. Halda erindi sínu á lofti að Guð – sem skapaði er líka sá sem er, lætur sig varða veröldina.
Veit að tíminn stendur ekki í stað og
minnir okkur á að óttast ekki veröldina.
Jesús sem enn stendur og veltir því fyrir sér hvernig raðað er til borðs og hvar fólk velur sér sæti.
... og já, minnir enn á hin mörgu andlit auðmýktar og réttlætis.
-Vinur eða vinkona, flyttu þig hærra upp!

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður

Guðspjall: Lúk 14.1-11
Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“
Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“
Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“

Ritningarlestrar

Orðskviðirnir 16.16-19
Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs?
Háttur hreinskilinna er að forðast illt,
líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar.
Dramb er falli næst,
hroki veit á hrun.
Betra er að vera hógvær með lítillátum
en deila feng með dramblátum.

Efesusbréfið 4.1-6
Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.