Lykill að læstu húsi.
12. sunnudagur eftir þrenningarhátíð,
Prédikun flutt 7. september 2025
Prestur: Eiríkur Jóhannsson
Lexía: Jes 29.17-24
Er ekki skammt þar til
Líbanon verður að aldingarði
og Karmel talið skóglendi?
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.
Pistill: 2Kor 3.4-9
Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.
Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.
Guðspjall: Mrk 7.31-37
Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú.
Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Flest eigum við minningar um að hafa lokast einhversstaðar inni. Oftast nær á barna- og unglingsárum. Í flestum tilvikum verður þetta að fyndinni minningu sem ekki ristir djúpt. Sjálfur læstist ég inni á klósetti heima hjá frændfólki, það sem mér þótti þó verst var að frændi minn og jafnaldri var látinn skríða inn um gluggann og hann gat svo opnað eins og ekkert væri sjálfsagðara. (þurfti víst eitthvert lag við lykilinn)
Svo er auðvitað til miklu verri lífsreynsla sem getur haft slæmar afleiðingar og valdið fólki vandræðum það sem eftir er ævinnar. Innilokunarkennd eða clostrófobía er nokkuð algengt fyrirbæri en það getur virkilega valdið fólki erfiðleikum og vanda í daglegu lífi. Vilja helst ekki fara í lyftu, líða illa í þröngum rýmum eins og til dæmis í flugvélum.
Svo er það líka útbreitt vandamál að fólk lokast inni með erfiða reynslu og áföll, finnur ekki leið til að tjá sig og smám saman verður þetta að meinsemd sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
Þegar allt kemur til alls þá er það staðreynd að þær eru býsna margar lokuðu dyrnar sem enginn lykill virðist finnast að.
Oft á tíðum er það skömm eða sektarkennd eða ótti sem þessu veldur og þrátt fyrir skynsemi og skýra hugsun að öðru leyti þá virðist sem lausnin á þessum vanda sé oft vandfundinn.
Guðspjall dagsins segir frá fallegu kraftaverki.
Þar sjáum, við þessa myndrænu frásögn af kraftaverki Jesú þegar færður er til hans maður sem í senn var heyrnarlaus og málhaltur. Lýsingin á lækningunni er einstök, hann stakk fingrum í eyru hans og vætti tungu hans með munnvatni sínu, loks leit hann til himins og mælti þetta undarlega orð sem þar er skrifað eins og það var sagt. Effaþa, það er opnist þú. Og undrið gerist. Og maðurinn tekur að mæla. Hann er laus úr kannski æfilöngu hafti, ófrelsi, einangrun sem leiðir af því að geta ekki heyrt til annarra og geta ekki tjáð hugsun sína.
Það er með þetta einsog flestar frásagnir biblíunnar að hægt er að skoða þær frá fleiri en einu sjónarhorni. Við getum skoðað atburðinn eins og hann er sagður og undrast hversu jarðbundin og nálæg frásögnin er, hann stingur fingrum í eyru og strýkur eigin munnvatni um tungu hans. Sonur Guðs er kominn inn í mannleg kjör, hann hikar ekki við að snerta hinn sjúka, lyfta upp hinum fallna, hann er allur og heill inn í öllum mannlegum kjörum sem hann gengur inn í .
En um leið getum við skoðað hið táknræna gildi sem liggur í frásögninni. Sem er að finna í öllumfrásögnum. Hina yfirfærðu merkingu. Ef grannt er skoðað.
Flest höfum við heyrt sagt eða jafnvel sagt sjálf um einhvern aldraðan einstakling sem eitthvað er farinn að tapa heyrn, að hann heyri nú það sem hann vilji heyra. Oft er þetta sett fram sem eins konar brandari, þegar eitthvað er sagt sem viðkomandi einstaklingur er ósáttur við á einhvern hátt eða hugsanlega nennir ekki að taka þátt í, þá heyrir hann ekki neitt.
Hins vegar ef eitthvað ber á góma sem viðkomandi telur áhugavert, þá heyrir hann eins og köttur.
Staðreyndin er sú að þetta gildir um okkur öll, hvort sem við erum farin að tapa heyrn eða ekki. Við höfum öll eins konar innbyggðar síur sem velja úr það sem okkur finnst verðugt og kasta hinu síðan frá, gott dæmi um slíka síu er það viðhorf að það sem gerist í fjarlægum löndum komi okkur ekki við. Stöðugar fréttir af hörmungum gera okkur ónæm og auðvelda okkur þessa afstöðu að við getum hvort sem er ekkert gert.
Sem betur fer er þetta ekki algilt fyrirbæri eins og dæmin sanna hér á landi einmitt í gær.
Hið varasama við þessa hugsun að það sem fjarlægt er komi manni ekki við er kannski fyrst og fremst það að fyrr en varði eru viðmiðunar mörkin komin upp á land og síðan að borgarmörkum, hverfaamörkum, og loks eru þau komin heim að okkar eigin húsvegg. Jafnvel að endingu inn að eigin skinni, Ég læt mig engu varða um hag nokkurra nema sjálfs mín og kannski minna nánustu. („ég elska sjálfan mig og kannski svolítið þig“.)
Eitt þeirra orða sem við notum um það að fá Jesú inn í líf okkar er frelsun, Jesús er frelsari mannanna. Þetta felur það í sér að eitthvað hlýtur að hafa verið í ánauð, í hafti, einhvern veginn bundið niður. Og frá sjónarhóli trúarinnar er það ekki einhver sýnileg eða ytri höft, heldur miklu fremur andleg, sálræn höft sem hann leysir. Effaþa opnist þú, minnir þetta ekki á orðin í sögunni um Alí baba „sesam opnist þú“ og klettaveggurinn opnaðist og leiðin inn í stóra hvelfingu fulla af gulli og gersemum. Viljum við ekki meina að einmitt eitthvað svipað eigi sér stað þegar Jesús mælir sín lausnarorð að eyru okkar opnist fyrir boðskap hans og um leið að losni um haft tungunnar og margt af því góða sem við búum yfir fái að brjótast fram.
Inn í þetta samhengi koma orð Páls postula úr öðru Kórintubréfinu þar sem hann ber saman hinn dauða bókstaf lögmálsins sem höggvinn var í stein og síðan hinn nýja sáttmála sem kemur með JesúKristi en hann birtist í lifandi anda. Þessi sáttmáli er þannig byggður á samspili undirorpinn okkar eigin hugsun og frumkvæði, breytilegur og sveigjanlegur, lýtur aðeins einu, sem er kærleikur Krists.
Lausnar og lykilorð þessa guðspjalls effaþa er þannig frelsun að vera leystur úr einhvers konar viðjum sem valdið hafa vanlíðan og kannski misskilinni sektarkennd. Að heyra það sem skiptir máli og meðtaka það í lífi sínu og hugsun og geta sagt frá og talað um það sem inni fyrir býr losa um stíflur og létta þrýstingi og láta lindina renna hindrunarlaust fram. Eins og Jesaja spámaður segir í ritningalestri dagsins
„Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning.“
Páll postuli leggur fram skilning sinn á því sem áður var og þess sem nú er orðið til með Jesú Kristi. Eins og við heyrðum í lestrinum:
„Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.
Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Það varð dýrlegt en varð þó að endingu að engu
Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.“
Þetta er það sem mestu skiptir í þessu samhengi, þjónustan sem sakfellir er fallin úr gildi. Þjónustan sem réttlætir og lyftir upp og leysir úr höftum það er hún sem blívur. Hennar er nú mátturinn og dýrðin. Þess vegna má tala og segja frá og létta af sér þungum byrðum. Við því er tekið af kærleika og umhyggju.
Þannig má segja að lykillinn að læstum myrkrakompumsé að finna í trausti, trausti til Guðs og trausti til samferðafólks sem lætur sig um aðra varða og gefa því gaum sem sagt er, hlusta og bregðast við af kærleika og stuðningi.
Við biðjum þess að sem allra flest megi njóta þeirrar gæfu að heyra og meðtaka þessi dýrlegu lausnarorð Jesú Krists er megna að leysa úr læðingi tjáningarmátt okkar og opna um leið fyrir skynjun á sköpunarverkinu, fegurð þess og undrum. Í Jesú nafni Amen.