Blómstrandi stríðsmenn

28. júlí 2022
Fréttir
Blómstrandi brynjur og menni - Hallgrímstorg 26. júlí 2022.

Eru blómin hluti sýningarinnar? Verk Steinunnar Þórarinsdóttur á Hallgrímstorgi vekja athygli allra sem fara í kirkjuna. Margir stilla sér upp við fígúrurnar, snerta þær eða faðma. Sum taka sjálfur eða einhver ferðafélaganna smellir af. Steinunn stillti upp pörum á torginu. Á móti nöktum, kynlausum og varnarlausum verum eru brynjaðar verur sem eru tákn stríðsmanna allra alda. Spennan er áþreifanleg. Brynjuð mennin verða líka táknmyndir árásarþjóða sem stríða gegn vanmáttugri nágrönnum. Margir nefna Rússa og Úkraínu.

Brynjur vekja viðbrögð og eru þátttökuskúlptúrar. Sýningin er í hugum margra ávirk þátttökusýning um stríð og frið, mennsku og ofbeldi og andstæður í lífi manna, hópa og þjóða. Það eru þó ekki aðeins tilfinningar og hugsanir sem vakna. Nokkur vildu bæta við listaverkin! Viðbætur eru tjáning. Í vikunni voru stríðsmennirnir allt í einu komnir með blóm í hendur og fang. Gróðurinn fór þeim mun betur en vopnin. Það var sem friðspillarnir vildu allt í einu gefa nöktum nágrönnum sínum blóm fremur en mæta þeim í herklæðum. Friðarblóm? Segðu það með blómum, var slagorð fyrir áratugum. Er ekki gæfulegra að blómstra en beita vopnum? Hernaður deyðir en gróandinn er tákn lífs. Á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju verða gjörningar alla dag og suma daga blómstra stríðsmennirnir.

Mynd og texti SÁÞ.