Frá toppi til táar

15. apríl 2022
Prédikanir og pistlar, Fréttir
Hallgrimskirkja. Mynd sáþ

Þegar drengirnir mínir voru litlir fóru þeir gjarnan í kvöldbað. Mamma þeirra dekraði við þá. Þegar búið var að þurrka þá, settust þeir niður og fengu svo fótanudd. Lyktin af kremi fyllti vitin, vellíðan fór um litla og heita líkama. Augu þeirra ljómuðu. „Þetta er gott, pabbi. Mamma, þetta er gott.” En það eru ekki aðeins ung börn, sem kunna að meta fótanudd. Fólk á öllum aldri getur notið dekurs. Móðuramma mín bjó elliár sín á heimili mínu. Ég man eftir fótaþvottatímum og hve amma naut þess þegar móðir mín kraup á hnén og baðaði fætur hinnar háöldruðu konu. Umhyggjusöm dóttir fór höndum um lúna fætur móður sinnar, snyrti neglur, skóf þykkildi og bar í þurrksprungur. Fótaþvottur í Reykjavík er líkur fótaþvotti um allan heim. Allir menn njóta þegar sönn umhyggja gælir við tær og hæla. Í fótaþvotti er fólgin umhyggja og lotning fyrir manngildi. Þegar einhver fellur á hné til að dekra við fætur annars er mannvirðing tjáð. Mamma laut að fótum ömmu og í huganum er myndin eins og helgimynd, sem minnir á meistarann, sem laut að fótum vina sinna og kenndi þeim lífsleikni.

Jesús þvoði fætur

Í texta dagsins er rifjuð upp fótaþvottasaga. Hún er skráð í þrettánda kafla Jóhannesarguðspjalls. Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sá gjörningur var óvæntur því fótaþvottur var verk þræla og hinna lægst settu sem og ástúðarstarfi eiginkvenna og mæðra. Það var óhugsandi að toppfólkið sinnti fótaþvotti annarra. Fótaþvottamenn voru á botninum. Hliðstæða sögunnar af þjónustu Jesú Kristi er því ekki í bókmenntum fornaldar. Á sandalatímum urðu fætur óhreinir. Fótaþvottur var nauðsynlegur. Strax í fyrstu bókum Biblíunnar kemur í ljós, að gestrisinn maður sá til þess að komumenn á heimili hans nytu fótahreinsunar (1.Mós. 18.4; 19.2; 24.32 og í Dómarabók 19,21). Annað var dónaskapur. Á undan máltíðum þrifu menn fætur sína og sömuleiðis áður en gengið var til náða (Ljóðaljóðin 5.3). Kámugir fætur voru tákn um sorg (2. Samúelsbók 19,25). Prestar urðu að þrífa fætur og hendur áður en þeir fóru til helgiþjónustu sinnar. Hreinleiki hins ytra var jafn mikilvægur hreinleika hið innra og forsenda þess að menn gætu nálgast hið heilaga og hinn Heilaga.

Jesús fór úr yfirhöfn sinni, girti sig þvottaklæðum og fyllti skál af vatni. Han laut niður og byrjaði að þvo. Vinir hans voru ýmsu vanir, en þetta var eitt af því sem þótti óhugsandi að Meistarinn gengi í starf þræla og eiginkvenna. Þeir vissu að Jesús var snillingur gjörninganna, sem alltaf þjónuðu kennsluhlutverkum. Símon Pétur var ekki maður meðalhófsins heldur voru mál hans gjarnan í ökla eða eyra. Nú gat hann ekki hugsað sér nein fótamál. Svar Jesú var skýrt. Ef Símon Pétur þægi ekki þjónustuna væru þeir ekki lengur vinir. Lærisveinninn var eins og Ragnar Reykás og sneri algerlega við blaðinu. Nú vildi hann alhreinsun. En tilboð Jesú var ekki um alþvott heldur táknþvott. Verk Jesú var guðsríkisgjörningur. Dagurinn var og er ekki laugardagur, þvottadagur líkamans. Skírdagur er dagur til að hreinsa lífið, skíra andann, sýna eðli trúarlífsins og til hvers Guðsríkið er.

Táknmál fótaþvottarins

Fótaþvottinum er ætlað að miðla visku Guðsríkisins og mannskilningi. Sá er ekki mestur og bestur, sem trónir á toppnum, á mest af dóti eða er frægastur fyrir spretthlaup samkeppninnar. Best eru þau, sem hafa séð í gegnum glitvefnað veraldar og uppgötvað, að lífsgæðin eru fólgin í að þjóna. Mest eru þau, sem sjá hlutverk sitt í að vera til fyrir aðra og efla velsæld þeirra. Vald í ríki Jesú er fólgið í öðru en ytri styrk og stöðu. Hásætin eru ekki toppurinn, heldur sest hamingjan fyrst og fremst í þakkláta menn. Þegar fólk eflir aðra eru menn á toppnum. Þegar Jesús var komin á leiðarenda var hann ekki með hugann við valdastólana í veröldinni heldur aðeins upptekinn af að þjóna öðrum, fyrst með því að þrífa fætur, bæta líkamslíðan sinna manna og síðan þjóna þeim til borðs, brjóta brauð og tryggja að allt hans fólk nyti næringar. Guðsríkið er líka líkamlegt og félagslegt umhyggjufyrirbæri, veruleiki til að efla fólk á allan máta. Við lífslok Jesú opinberaði hann eðli ríkis síns og sýndi sjálfur hvernig lífsafstaða fylgjenda hans ætti að vera. Ef Jesús hefði bara verið upptekin af ytra valdi hefði hann verið gleymdur. En af því hann var altekinn af Messíasarskilningi þjónustunnar frelsar hann heiminn. Við lærum af Jesú að toppurinn er að þjóna öðrum.

Kölluð til að vera

Í sögusafni veraldar eru ýmsar sögur af þegar fólk skilur stefnu Jesú og líf þeirra breytist. Dómari í Suður-Afríku á tíma apartheid, stéttaskiptingar hvítra og svartra, sótti kirkju. Hann hafði á heimili sínu svarta þjóna, sem sáu um flest það sem gera þurfti. Í kirkjunni sem dómarinn sótti var fótaþvottur iðkaður á skírdegi. Meðlimir kirkjunnar þvoðu fætur hvers annars. Dómaranum var falið að þvo fætur einnar af þjónustukonum sínum heima. Maðurinn hikaði, en kraup svo niður og þvoði þessa svörtu fætur, sem höfðu þjónað honum, fólkinu hans og lífi þeirra. Fótaþvotturinn hafði svo mikil áhrif á dómarann að hann endurmat afstöðu sína til fólks. Hann enduruppgötvaði mennsku sína. Hann sá allt í einu líf sitt í ljósi Jesúafstöðunnar, að fólk hefur ekki hlutverk sitt eða gildi af stéttaskiptingu samfélagsins. Manngildi er fólgið í og skilgreint af Jesú Kristi. Frammi fyrir Guði höfum við allt aðra skilgreiningu en í mannheimi. Í Guðsríkinu, sem er æðra en mannaríki, erum við þjónar en ekki herrar. Í Guðsríkinu erum við kölluð til auðmýktar gagnvart undri lífsins, til elsku gagnvart þörfum fólks og Guðs góðu sköpunar. Við erum kölluð til að vera það sem við erum, en ekki það sem við eigum eða stjórnum. Þegar við erum komin á hnén og farin að þvo fætur erum við í annarri stöðu en þjóðfélagsstétt. Við höldum áfram að vera við sjálf, vera í fjölmörgum hlutverkum, en þó erum við kölluð til róttækara lífs og dýpri lífsskilnings. Við náum lengst í þjónustunni. Við iðkum Jesúlífið með því að þjóna öðrum. Sá veruleiki mótar nýjan mannskilning og nýja tilveru. Í fótþvottaskál Jesú speglaðist himininn og þau sem nutu fótþvottarins sáu hinn fullkomna mann speglast í vatninu. Sá sem getur þvegið fætur getur bætt heiminn. Drengir umluðu af gleði og amma brosti út að eyrum. Lærisveinarnir mundu eftir þegar Jesús fór höndum um tærnar. Sælan fór um þá og vitundin fylltist af gleði. Fótþvottur er fyrir lifandi fólk og þjónusta er fyrir lífið. Hlutverk okkar í heiminum er að vera börn Guðsríkis. Skírdagur er til að skíra eðli heimsins, kirkjunnar og okkar.

Hvernig horfir Guð á þig? Hvernig horfir þú á aðra? Hverjum þjónar þú?

Guðspjall: Jóh 13.1-15

Prédikun SÁÞ á skírdagskvöldi.