Friðargjörningur

Fólk frá Úkraínu söng úkraínskt þjóðlag. Úkraínskir þjóðbúningar. Mynd sáþ
Fólk frá Úkraínu söng úkraínskt þjóðlag. Úkraínskir þjóðbúningar. Mynd sáþ

Tónleikar voru haldnir í Hallgrímskirkju 8. mars til að tjá samstöðu með Úkraínumönnum og mótmæla innrás Rússa. Fjöldi listamanna og ræðumanna sungu, töluðu og tjáðu frið. Friðargjörningurinn var samstarfsverkefni margra aðila og Hallgrímskirkja var einn þeirra. Flest starfsfólk kirkjunnar kom að undirbúningi og framkvæmd þessa friðargjörnings og Kór Hallgrímskirkju söng.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins sóknarkirkja og pílagrímastaður, heldur gegnir einnig hlutverki þjóðarhelgidóms. Kirkjan er opin alla daga, hvort sem góðæri ríkir eða plágur geysa. Þegar stórviðburðir verða sækir fólk í kirkjuna til að kveikja á kertum og biðja. Meðal starfsfólks kirkjunnar er þekking hvað gera þarf til að fjölsóttar samverur lánist og þjóni fólki. Hallgrímskirkja efndi til friðarstundar þegar á fyrsta degi innrásar Rússa í Úkraínu. Síðan hefur kirkjan verið vettvangur friðarbæna. Bænatré hefur verið sett upp í kirkjunni og ljósberinn verið mikið notaður.

Friðartónleikar í Hallgrímskirkju voru tilfinningaríkir og Hallgrímskirkja er fang fyrir allar tilfinningar lifandi fólks. Takk fyrir hugsjónafólk, skipuleggjendur, listamenn, ræðumenn og komumenn. Friður sé með þér. SÁÞ