Hallgrímskirkja tekur á móti Bænavoð Erlu Þórarinsdóttur

01. júní 2023
Fréttir
Erla Þórarinsdóttir Mynd: Sigurgeir Sigurjónsson

Við messu á Sjómannadaginn, 4. júní nk., tekur Hallgrímssöfnuður formlega við kærkominni listaverkagjöf. Þar er um að ræða Bænavoð Erlu Þórarinsdóttur sem hefur verið fundinn staður á vegg við hlið hornsteins Hallgrímskirkju hjá Kristsstyttu Einars Jónssonar og Ljósbera Gunnsteins Gíslasonar. Listaverkin þrjú mynda nokkurskonar bænastúku. Fjölmargir eiga bænastund með sjálfum sér á þessum stað í kirkjunni eða skrifa niður bænir sem síðar eru bornar upp að altari.

Erla saumaði út bænina sem Jesús Kristur kenndi okkur með silkiþræði í ullarvoð sem Rauði krossinn notar við hjálparstörf. Verkið var hafið í byrjun efnahagshruns 2008 og lokið í heimsfaraldrinum 2020.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands 1996 – 2016, gefur Hallgrímskirkju listaverkið til minningar um eiginkonu sína, Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, móður listamannsins. Útför forsetafrúarinnar var gerð frá kirkjunni 21. október 1998 að viðstöddum þjóðhöfðingjum Norðurlanda.

Það er vel við hæfi að tekið sé við gjöfinni á Sjómannadeginum enda lét Guðrún Katrín sér annt um þann dag, dóttir skipstjórnarmanns sem fórst á sjó þegar hún var á unga aldri.