Handavinna í Hallgrímskirkju

24. maí 2023
Fréttir

Á laugardagsmorgnum í Hallgrímskirkju heyrist notalegt spjall og glamur í prjónum.

Kvenfélagskonur í Hallgrímskirkju hittast til 

að sinna handavinnu, prjóna og spjalla um allt milli heima og geima.

Laugardaginn 25. mars síðastliðinn bættust konur í hópinn á vegum Landsbyggðin lifir en þær voru að kynna verkefnið „Samfélagsleg arfleifð okkar“ (Our Civic Heritage)en uppistaðan í fegurðinni á borðunum var frá konunum úr Hallgrímskirkju, laugardagshópnum sem hefur verið að eflast og stækka á liðnu ári og hittist vikulega yfir vetrartímann.Við dáðumst að handverkinu og dugnaðinum. Fallegar útsaumsmyndir og undurfallega mynd Ásu Guðjónsdóttur af síðustu kvöldmáltíðinni. Litríkur og smágerður útsaumur á stólum frá Báru Vilborgu Guðmannsdóttur og einnig fallegt jólapostulín, fallegar diskamottur og servíetturhringir heklaðar úr örfínum þræði.Prjónles, peysur og falleg vesti í íslenskum fjallabláum lit sem Helga Kristín Diep prjónaði. Litskrúðug teppi til að hlýja á köldum dögum og kvöldum sem Sesselja Ó. Jónsdóttir heklar og gefur til að hlýja og gleðja. Einnig var fallegur útsaumur eftir Óskar, eiginmann Hjördísar Jensdóttur sem er ein af okkar tryggu sjálfboðliðum.

Hér má sjá myndband frá þessum degi.