Hausttónleikaröð Hallgrímskirkju 2022

02. september 2022
Fréttir

Hausttónleikaröð Hallgrímskirkju 2022 hefst laugardaginn 3. september með hádegistónleikum Steingrims Þórhallssonar organista Neskirkju í Reykjavík.
Á efnisskrá tónleikanna eru ný og nýleg orgelverk, öll verkin nema eitt eru frumflutt á tónleikunum.

Sunnudaginn 25. september verða söfnunartónleikar undir heitinu „Hljómar frá heimsskautsbaugi - Söfnun fyrir nýjum kirkjuklukkum í Grímsey“ þar sem norðlenskt tónlistarfólk kemur fram. Þar er um að ræða Eyþór Inga Jónsson organista Akureyrarkirkju og söngvarana Ívar Helgason, Jónas Þór Jónasson, Kristjönu Arngrímsdóttur, Óskar Pétursson og Ösp Eldjárn. Auk þess taka Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju og Kór Hallgrímskirkju undir stjórn Steinars Loga Helgasonar þátt í tónleikunum.

Laugardaginn 1. október verða fjölskyldutónleikar undir yfirskriftinni Orgelhátíð barnanna þar sem Guðný Einarsdóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir leika frægustu orgelverk sögunnar ásamt þekktum lögum úr kvikmyndum og Eurovision slagara.
Ókeypis er á orgelhátíðina og allir eru velkomnir, stórir sem smáir.

30. október verða Hausttónleikar Kórs Hallgrímskirkju þar sem flutt verða bresk tónverk fyrir orgel og kór ásamt nýjum íslenskum kórverkum sem samin eru sérstaklega fyrir Kór Hallgrímskirkju. Verkin sem frumflutt verða er eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Þorvald Örn Davíðsson, Elínu Gunnlaugsdóttur og Sigurð Sævarsson. Stjórnandi er Steinar Logi Helgason og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel. Einsöngvarar eru úr röðum kórfélaga.

4. og 5. nóvember er Hallgrímskirkja samstarfsaðili Iceland Airwaves með tónleikum Kristjáns Hrannars Pálssonar organista og Umbra ensemble.