Lespúlt afhent Hallgrímskirkju í minningu Sigurðar Bjarnasonar

19. september 2022
Fréttir
Afhending minningargjafar um Sigurð Bjarnason

Við fjölskylduguðsþjónustu 18. september var Hallgrímskirkju fært að gjöf fallegt ræðupúlt í minningu Sigurðar Bjarnasonar. Ása Guðjónsdóttir, ekkja Sigurðar og börn þeirra Margrét Salvör, Guðjón Rúnar og Bjarni afhentu púltið og strax á eftir lásu Ása og Margrét Salvör ritningalestra sunnudagsins. 

Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar tók við gjöfinni fyrir hönd kirkjunnar og sagði við þetta tilefni: "Sigurður var félagi í sóknarefnd Hallgrímskirkju frá 1989 til dánardags og þar traustur og tillögugóður vinur. Hann var hagleiksmaður og hirðumaður og hann geymdi í fórum sínum forláta afgangseik frá þeim tíma sem Klais orgelið stóra var byggt inn í kirkjuna fyrir nærri þrjátíu árum. Úr þessum eðalviði hefur Jón Karl Ragnarsson, smiður á Eyrarbakka, smíðað stöndugt ræðupúlt. Andrés Narfi Andrésson, húsarkitektinn okkar í Hallgrímskirkju, teiknaði púltið af smekkvísi sinni eins og svo margt fleira hér inni. Við erum þeim, og sérstaklega Ásu og fjölskyldu hennar, ævinlega þakklát."

Eftir guðsþjónustuna var boðið upp á kaffi í suðursal kirkjunnar þar sem viðstaddir gæddu sér á góðgæti í boði Kvenfélags Hallgrímskirkju en Sigurður studdi vel við starf kvenfélagsins þar sem Ása kona hans var gjaldkeri og síðar formaður um árabil.