Ný lýsing frumsýnd

01. nóvember 2022
Fréttir

Ný lýsing var frumsýnd í Hallgrímskirkju fimmtudaginn 27. október 2022 við skemmtilega athöfn. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir bauð gesti velkomna og flutti bæn og blessun. Að svo búnu söng Sólbjörg Björnsdóttir sálm áður en Sigríður Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri flutti stutta tölu og þakkarávarp. Loks tók lýsingarhönnuðurinn, Örn Erlendsson, við og sýndi gestum hvað hin nýja lýsing hefði upp á að bjóða. Meðan lýsingin skipti litum í kirkjuskipinu lék Björn Steinar Sólbergsson fagra tóna á orgelið. Að lokum gengu viðstaddir út í kvöldið þar sem ljósin böðuðu kirkjuna í hinum ýmsu litum og tónum.   

Blessun og bæn sr. Irmu Sjafnar

„Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu (Jóh 1: 4-5a)

Velkomin til ljósastundar í Hallgrímskirkju.
Þegar við í umvefjandi rökkrinu komum saman til að gleðjast yfir ljósadýrð, nýrri ljósadýrð og enn meiri.
Ljósgeislar sem glæða Hallgrímskirkju lífi eins og andi Guðs gefur orðum okkar og bænum líf.

Myrkrið kennir okkur um ljósið. Í myrkrinu eru okkar fyrstu lífdagar, í örugga myrkri móðurlífsins og svo lítum við dagsins ljós, ljós heimsins.

Við biðjum Guð að blessa ljós veraldarinnar, þau öll sem fæðast og verða til, ljósin sem gleðja okkur, ljósin sem varpa litum á veröldina til að við sjáum skýrar og betur.

Litir og ljós leika um kirkjuna okkar glæða andlit okkar nýju lífi, sjón okkar og fegurð kirkjuhússinns bæði að utan og innan.
Guð blessi ljósgeislana, fegurðina, og birtuna sem lýsir okkur að húsi Guðs, inn í hús Guðs og að ljósi heimsins sem er Kristur.

„Ég blessa með ljósi Guðs
Veri hjarta þitt brennandi,
kirkjan ljómandi,
myrkrið flýi jörð." (Karl Sigurbjörnsson)

Sólbjörg Björnsdóttir söng einsöng við undirleik Björns Steinars Sólbergssonar organista

Sigríður Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri flutti eftirfarandi tölu við athöfnina þar sem hún rakti ferlið frá því ákveðið var að skipta um lýsingu til þess að nú er kirkjan búin nýrri og glæsilegri lýsingu jafnt innandyra sem utan.

Það er virkilega gaman að standa hér fyrir framan ykkur í kvöld og kynna fyrir ykkur nýja og glæsilega lýsingu í Hallgrímskirkju, bæði innandyra og utan.

Hallgrímskirkja er fyrst og fremst kirkja og sinnir því hlutverki sínu með miklum myndarbrag með heilmikilli dagskrá í hverri viku. En hún er líka staður fyrir tónlist, menningu og upplifun. Hún er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og tekur á móti um það bil milljón ferðamönnum á ári.

Hún er líka mikilvægt og fallegt kennileiti í Reykjavík sem sést víðast hvar í borginni og í kringum hana. Það er því mikil ábyrgð og skylda sóknarnefndar og starfsfólks Hallgrímskirkju að sinna henni vel og passa að hún standi undir öllum þessum hlutverkum sínum.

Það var fyrir rúmu ári sem sóknarnefnd Hallgrímskirkju tók ákvörðun um að fá lýsingarhönnunarfyrirtækið Lisku til samstarfs við okkur um endurnýjun á allri ljósvist kirkjunnar. Lýsingin var orðin afar döpur og gloppótt enda búin að þjóna okkur í áratugi svo það var sannarlega kominn tími á upplyftingu.

Fyrstu hugmyndir frá Lisku voru kynntar í desember í fyrra og féllu þegar í góðan jarðveg hjá sóknarnefnd. Í janúar var svo sett upp tímalína sem miðaði að því að allt yrði klárt og komið í notkun fyrir vígsluafmæli kirkjunnar í lok október.

Fengin voru tilboð frá nokkrum lampaframleiðendum og umboðsaðilum sem leiddi af sér að Griven lamparnir valdir í útilýsingu og Erco inni.

Lagt var upp með að fanga arkitektúrinn og línurnar í hönnun Hallgrímskirkju þegar lýsingin var hönnuð. Hún á að vera til áherslu og til að lyfta upp þessari mögnuðu byggingu. Það hefur tekist með eindæmum vel. Áherslulýsing er á ákveðna hluta og hluti kirkjunnar. Til dæmis á Jesústyttuna við innganginn, predikunarstólinn, orgelið, kórinn og kórtröppurnar. Svo eru mismunandi tónleikalýsingar eftir því hvort tónleikarnir eru fremst eða aftast í kirkjunni, stórir eða litlir.

Ákveðnar senur eru forstilltar inn í kerfið þannig að auðvelt er fyrir alla að ganga um og velja úr nokkrum tegundum lýsingar. Það er hins vegar bara fyrir fáeina útvalda að gera stærri breytingar í appinu.

Við hér í Hallgrímskirkju erum alls ekki óvön því að starfa meðan framkvæmdir standa yfir enda erum við líklega oftar en ekki með framkvæmdir í gangi. Þegar unnið er við framkvæmdir inni í kirkjunni, hvað þá kirkjuskipinu, þá er allt kapp lagt á að klára á sem stystum tíma til að valda sem minnstri röskun á starfseminni.

Við fundum tíma í byrjun september, tæpar þrjár vikur, þar sem ekki voru bókaðar athafnir og festum okkur hann til vinnunnar inni í kirkju. Þá voru settir upp vinnupallar meðfram báðum hliðum kirkjuskipsins, alveg upp í rjáfur. Heilmikil mannvirki sem voru reist á þremur dögum. Þá voru gömlu lamparnir tíndir niður, settar upp nýjar brautir og nýir lampar og loks var lýsingin stillt af áður en pallarnir voru teknir niður aftur. Ég held að þetta hljóti að vera einhvers konar met í hröðum handtökum því búið var að setja upp 206 lampa og stilla þá á örfáum dögum. En það voru líka unnir langir dagar til að ná þessu.

Það var heilmikið mál að setja upp útilýsinguna enda er áberandi breyting þar því bætt hefur verið við lýsingu á hliðum kirkjuskipsins og þaki. Þannig að það var mikil lagnavinna í gangi og einnig vangaveltur um hvar og hvernig best væri að festa ljósin á kirkjuna.

Einhverjir hafa eflaust tekið eftir því að það vantar ljós á kórinn og kúpulinn að utan, aftast á kirkjunni. Það er ekki af því það hafi gleymst. Steypan yfir kórnum þarfnast lagfæringar og verið er að vinna í því núna. Þannig að lýsingin á þann hluta verður kláruð á næsta ári þegar múrverkið er tilbúið.

Um leið og unnið var í ljósunum notuðum við tækifærið og lögðum fyrir rafbílahleðslustöðvum á bílastæði kirkjunnar og tengdumst hitalögnum sem hafa legið ónotaðar undir stéttinni við kirkjuna frá því stéttin var lögð. Það var ekki annað hægt en að nota tækifærið þegar verið var að taka upp stéttina næst kirkjunni. Svo bættum við áherslulýsinguna á steinda gluggann hans Leifs Breiðfjörð yfir aðaldyrunum.

Þakka samstarfsfólki og gestum Hallgrímskirkju fyrir umburðarlyndi og þolinmæði í tengslum við framkvæmdirnar. Það er alltaf talsvert rask sem fylgir svona stórum verkefnum en líka mikill léttir þegar þeim lýkur. – og hvað þá með svona glæsilegum hætti.

Það voru ýmsir aðilar sem komu að verkinu og stundum hefur verið margt um manninn, iðnaðarmanninn, á verktímanum. Mig langar að þakka eftirtöldum aðilum fyrir samstarfið og framlagið til ljósaskiptanna: Verkís, M1, Luxor, Erco Griven, Pharo, Ískraft, Casambi, Verktækni, Verkpallar, Lekur.is, Blikksmiðjan Grettir, Vættarborgir og Hornsteinar.

Sérstakar þakkir færi ég Pétri Elvari Birgissyni rafvirkjameistara hjá Fagraf sem hélt utan um framkvæmdina og Erni Erlendssyni verkfræðingi hjá Lisku fyrir einstaklega gott samstarf og utanumhald. Það hefur verið frábært að vinna með ykkur báðum. Fagmennska, virðing og einlægur áhugi á verkefninu og kirkjunni hafa einkennt störf ykkar og fyrir allt þetta erum við innilega þakklát.

Við gerðum okkur eflaust öll grein fyrir því hvað ljósvist skiptir gríðarlega miklu máli í rými eins og þessu en nýja lýsingin í Hallgrímskirkju er listaverk út af fyrir sig. Ég held að allir sem hafa komið að þessu verkefni megi vera stoltir af vel heppnuðu verki.

Að þessu sögðu þá kynni ég til leiks Örn Erlendsson, aðalhönnuð ljósvistarinnar, en hann ætlar að sýna okkur hvað hin nýja lýsing hefur upp á að bjóða.Örn Erlendsson tekur við líkani af Hallgrímskirkju úr höndum Sigríðar framkvæmdastjóra

Á vef Lisku ehf. er lýsingunni gerð góð skil. Hér er frétt um innilýsinguna og hér er frétt um útilýsinguna

Hér má finna fallegar myndir af nýju lýsingunni: Ný lýsing í Hallgrímskirkju