Nýjar klukkur á leið til Grímseyjar sýndar í Hallgrímskirkju

09. apríl 2023
Fréttir

Eftir guðþjónustu á páskamorgni voru glænýjar kirkjuklukkur, sem eru á leið til Grímseyjar, afhjúpaðar og blessaðar í fordyri Hallgrímskirkju. Siglt verður með klukkurnar til Grímseyjar í vor eða sumar þegar allt verður til reiðu í kirkjuturninum nýja til þess að taka á móti þeim.

Á veggspjaldi er rakin saga Miðgarðakirkju og bruna hennar 21. september 2021 svo og bygging nýrrar kirkju í Grímsey sem er komin vel áleiðis. Í brunanum bráðnuðu tvær gamlar bronsklukkur. Hallgrímssöfnuður ákvað að standa fyrir söfnun og láta steypa nýjar klukkur í Hollandi. Með þessu er Hallgrímskirkja að endurgjalda vinargjöf frá því fyrir hálfri öld, en þá var ein af klukkunum í klukknaspili kirkjunnar gefin í nafni Grímseyinga.

Kirkjan hefur einnig sérstök tengsl við Miðgarðakirkju, þar sem yfirkirkjuvörður Hallgrímskirkju, Grétar Einarsson, er sonur Einars heitins Einarssonar djákna, sem starfaði um skeið í Grímsey, og gerði nokkra af þeim kirkjumunum sem glötuðust í eldinum.

Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar, stýrði athöfninni, Irma Sjöfn Óskarsdóttir sóknarprestur mælti blessunarorð og Grétar Einarsson afhjúpaði kirkjuklukkurnar.

Tekið verður á móti framlögum til byggingar nýrrar kirkju í Grímsey meðan klukkusýningin stendur í Hallgrímskirkju.

Í viðhengi er texti um klukkusýninguna á íslensku, en megintexti veggspjaldsins er á ensku. Hönnuður veggspjaldsins er Hilmar Þorsteinn Hilmarsson. Alan Rettedal yfirfór enska textann.