Orgel og organistar í Reykjavíkurprófstsdæmi vestra.

04. maí 2022
Fréttir
Í nýju myndbandi sem Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar, hefur staðið að er áhorfendum boðið inn í allar kirkjur - alls níu - í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra til að hlýða á ellefu orgelleikara flytja orgelverkið Was Gott tut, das ist wohlgetan, sálmalag og 9 tilbrigði eftir Johann Pachelbel. Þeir skipta verkinu á milli sín. Sálmalagið er nr. 214 í sálmabók kirkjunnar og heitir Gakk inn í Herrans helgidóm sem er yfirskrift myndbandsins. Það var sr. Valdimar Briem (1848-1930) sem þýddi sálminn.
Áhorfendur fá að kynnast orgelum kirknanna og organistunum sem leika jafnan á þau.
Björn Steinar segir að upprunalega hugmyndin komi frá Nils-Henrik Asheim sem er organisti tónlistarhússins í Stavanger í Noregi.
„Síðastliðið haust hitti ég organistana og fleiri til að kynna þessa skemmtilegu hugmynd,“ segir Björn Steinar. „Allar kirkjur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra eru með.“ Hann segist vonast til að myndbandið verði öðrum hvatning til að gera slíkt hið sama eða eitthvað í svipuðum dúr til að kynna orgelið og undraveröld þess og fegurð.
„Þorgrímur Þorsteinsson, tónmeistari, sá um upptökur og hljóðstjórn,“ segir Björn Steinar, „og gerir þetta listavel, vinna hans var hrífandi.“
Áhorfendum gefst ekki aðeins tækifæri til að hlusta á organista heldur og að svipast ögn um inni í kirkjunum sjálfum. Myndefnið allt er líka mjög vel heppnað. Myndbandið er tæpar tíu mínútur að lengd.
Upptökur fóru fram vorið 2022."