Saga skírnarfonts Hallgrímskirkju

10. desember 2021
Fréttir
Skírnarfontur Hallgrímskirkju - mynd sáþ

Skírnarfontur Hallgrímskirkju var helgaður og blessaður fyrsta sunnudag í aðventu árið 2001. Tuttugu árum síðar sögðu Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir, kona hans og samstarfsmaður, frá tilurð fontsins og öðrum listaverkum eftir þau í Hallgrímskirkju. Mikill fengur er að þessari greinargerð þeirra til skilnings á gerð fontsins og verkum þeirra í kirkjunni. Ávarp þeirra í athöfn eftir guðsþjónustu fyrsta sunnudags í aðventu er hér að neðan. 

Skírnarfonturinn er gjöf frá Kvennfélagi kirkjunnar. Hann var vígður á fyrsta sunnudegi í aðventu 2001. Skírnarfonturinn er nátengdur öðrum verkum Leifs hér í kirkjunni og er nauðsynlegt að segja aðeins frá tengingu þeirra. Aðalform steinda glugganns á vesturhlið kirkjunnar sem Leifur gerði árið 1999 og bronshurðarinnar sem hann gerði árið 2010 er fjórblaða formið (quatrofoil á ensku). Það er ráðandi tákn þessara verka og er gamallt tákn hamingju, gæfu og gengis en einnig er það tákn guðspjallamannanna. Það kemur sex sinnum fyrir í steinda glugganum og síðan á framhlið bronshurðarinnar og í fjórum hlutum innan á hurðinni. Fjórblaða formið er síðan aðal form skírnarfontins. Neðri hluti hans er úr íslensku blágrýti með stuðlabergs formi og efri hlutinn er úr tékkneskum blýkristal sem var steyptur í Tékklandi og vegur um 250 kíló.

Skírnarskálin sem er handslípuð ofan í kristalinn er með fjórblaðaformi eins og bronshurðin og steindi glugginn. Fjórblaðaformið er síðan sandblásið á stuðlabergið. Með því að nota stuðlaberg í neðri hluta skírnarfontssins vildi ég skírskota til stuðlabergsforma kirkjunnar. Fjórblaðaformið var mikið notað í gotneskum arkitektúr og þá sérstaklega í kirkjum og vísar til gotneskrar stílgerðar Hallgrímskirkju.

Það var ekki auðvelt verk að fá kristalinn steyptan. Öll verkstæði sem Leifur þekkti til sögðu að þetta væri ekki hægt. Hann skyldi bara gleyma þessu og gera annan font. Sú vinna var langt komin þegar Leifi og Sigríði var boðið til Ástralíu á stóra ráðstefnu sem hét Ausglass. Þar var Leifi boðið að kenna í mánuð á ráðstefnu á vegum stærsta félags glerlistamanna í Ástralíu. Þar var samkennari hans frá Tékklandi, sem heitir Jaromir Rybak og er mjög þekktur glerlistamaður. Hann var með fyrirlestur um frægustu listamenn Tékklands þau Jaroslav Libenský og Jaroslava Brychtova sem eru fræg fyrir að gera gríðasastóra glerskúlptúra. Tékkar eiga t.d. marga fremstu glerlistamenn sem til eru og eiga ekki í vandræðum með að steypa stóra glerskúlptúra.

Eftir að hafa séð verk þeirra þá töluðum við um skírnarfontinn við Jaromír. Hann sagði okkur að það væri ekkert mál að steypa þennan 250 kg. kristalfont í Tékklandi ....No Problem!!! sagði hann komið þið bara til Tékklands.

En þegar byrjað var að vinna kristalinn urðu NÓG problem, vandræði. Þar sem þetta er mikill glermassi þurfti að kæla glerið niður í ofninum í langan tíma, fleiri mánuði. Í fyrstu tilraun sprakk glerið eftir kælingu og þrisvar sinnum eftir það, þar til að með aðstoð Libenský og Bryctovu var fundin var fundin ný leið og ný kælingaraðferð. Þá lokst tókst að kæla kristalinn án þess að hann spryngi. Mér skilst að kælingaraðferðin heiti LEIFUR er heiti yfir alerfiðustu kælingar á glermassa eða hluta glerlistaverka.

Hingað til lands komu síðan tveir glerlistamenn sem settu verkið upp. Með okkur og tékkneskum glerlistamönnum tókust síðan góð kynni og vinátta. Við hittumst í mörg ár eftir þetta.

Við, Leifur og Sigríður, stóðum svo fyrir því Glerlistahópnum Rubikon ásamt Libenský og Brychtovu var boðið að sýna hér á Kjarvalsstöðum og í framhaldi af því var Leifi boðið að sýna með þeim í sýningarsalnum Mánes í Prag árið 2002.

Meira um táknin á skýrnarfontinum.

Í gegnum himneskan kristalinn má síðan lesa texta úr biblíunni sem er í 16. kafla Markúsarguðspjalls: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða“ Letrið er sandblásið spegilvent aftan á kristalinn þannig að það sé hægt að lesa það rétt, séð í gegnum kristalinn. Blágrýtishluti skýrnarfontsins er sexstrendur og höfðar til stuðlabergs forma kirkjunnar.

Á stuðlaberginu er fjórblaðaformið sandblásið og inn í því er vers Hallgríms Péturssonar „Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.“ Þegar Leifur gerði skírnarfontinn sá hann fyrir sér að stuðlabergið ætti að tákna jörðina og kristallinn væri tákn himins. Þegar sólin skín inn í kirkjuna og á kristalinn brjótast sólargeislar út í öllum regnbogans litum og geisla um kirkjuna.

Leifur og Sigríður hafa unnið mikið saman alla tíð að listsköpun sinni og þá meðal annars fyrir Hallgrímskirkju. Sigríður stóð að stofnum Listasafns Hallgrímskirkju og sá um listsýningar á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Sigríður hefur líka gert damaskofna altardúka fyrir kirkjuna, annar er hátíðadúkur með versum úr Passísálmunum og tvær stólur á prestana.

Leifur hefur haldið hér nokkrar sýningar og meðal annarra fjórðu einkasýningu sína sem hann hélt árið 1983 og var það önnur af fyrstu sýningum í forkirkjunni áður en kirkjuskipið var vígt. Leifi telst svo til að saman hafi þau gert um 16 listaverk víðsvegar í kirkjunni. Má þar nefna stóra vestur gluggann og tvo steinda glugga í inngangsdyrum kirkjunnar, síðan predikunarstólinn, þá skírnarfontinn og bronshurðina. Sigríður gerði svo tvo damaskofna altardúka og tvær stólur. Einnig blátt málverk eftir Leif sem hann gaf listasafni kirkjunnar.

Predikunarstóllinn hér á vinstri hönd er teiknaður af Andrési Narfa Andréssyni og er gjöf frá Sigurbirni Einarssyni, biskupi. Myndverk á predikunarstól og útskurð gerði Leifur. Glerlistaverk á pedikunarstólnum sýnir fangamark Krists, grísku stafina X og P eru tveir fyrstu stafirnir í gríska orðinu Christos eða Kristur. Til hliðar við þá eru stafirnir alpha og omega, sem tákna upphaf og endi. Á þremur glerlistaverkum framan á predikunarstólnum eru myndir af blaðsíðum úr Passíusálmunum, eiginhandar riti Hallgríms sem geymt er í Þjóðarbókhlöðunni. Textinn er silkiprenntaður á glerið með glerlitum sem eru brendir inn í það

Þrjú trúarleg tákn eru fyrir ofan texta Hallgríms. Fyrsta táknið er Hendin, sem er tákn Guðs. Annað táknið er Lambið, sem er tákn Krists. Þriðja táknið er Dúfan sem er tákn heilags anda. Hún er einnig á himni predikunarstólsins. Hún er gyllt og skar Leifur hana út og festi á himinn predikunarstólsinns. Dúfan er ekki stór en er afskaplega mikilvæg á þessum stað. Útskorinn texti á himni predikunarstólsins er úr Biblíunni og hljóðar svo “Láttu guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu. Blessuð hans orð sem boðast þér. Í brjósti og hjarta festu.”

Leifur Breiðfjörð / Sigríður Jóhannsdóttir / 3. desember 2021