Þær bökuðu upp kirkjuna!

08. mars 2022
Fréttir
Skírnarfontur Hallgrímskirkju - ein af mörgum gjöfum Kvenfélags Hallgrímskirkju. Mynd SÁÞ

Í dag, 8. mars, er Kvenfélag Hallgrímskirkju 80 ára. Stofnfundur félagsins var haldinn sunnudaginn 8. mars 1942 í bíósal Austurbæjarskólans. 325 konur voru stofnfélagar. Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti var kjörin formaður. Auk hennar voru kosnar í stjórn Anna Ágústsdóttir, Emilía Sighvatsdóttir, Jónína Guðmundsdóttir, Lára Pálmadóttir og prestkonurnar Magnea Þorkelsdóttir og Þóra Einarsdóttir.

Mikill stórhugur og bjartsýni var í kvenfélagskonum þegar söfnuðinum var falið að byggja kirkju í minningu Hallgríms Péturssonar. Ákveðið var að félagskonur öfluðu einkum fjár til að kosta búnað kirkjunnar, þ.e. messuskrúða og það er þurfti til helgiþjónustunnar. Þó lagði félagið oft fram stórar upphæðir til framkvæmda.

Markmið félagsins frá upphafi var að vera vettvangur fyrir konur, efna til funda og þjóna safnaðarfólki. Félagið varð afar öflugt og beitti sér fyrir að kirkjan fengi vandaðan búnað sem nýttist í helgihaldi og safnaðarstarfi. Meðal gjafa félagsins eru ítalskir ljósastjakar á altari kirkjunnar, messuskrúði, altarisdúkur og skírnarfontur. Þá gáfu kvenfélagskonur fyrsta pípuorgel kirkjunnar og gáfu síðar fé til kaupa á Frobenius-orgelinu sem og stóra Klais-orgelinu. Þegar kirkjan fluttist úr kórkjallara í suðurálmu gáfu félagskonur stólana og lögðu til háa upphæð til stólakaupa í kirkjuskipið. Félagið gaf einnig þrjár klukkur í klukknaspil kirkjunnar.

Félagið hefur þjónað mörgum í 80 ára sögu þess. Þá hefur miklu fé verið safnað með kaffisölu, basar, happdrætti, merkjasölu, minningarkortum, póstkortum, minjagripasölu og silfurskeiðasölu. Á fyrstu árum félagsins höfðu félagskonur tvisvar sinnum útiskemtun í Hljómskálagarðinum og stóð sú síðari í tvo daga og fór hún fram eins og sveitasamkomur í þá daga með helgihaldi og svo var ball um kvöldið!

Meðal viðburða á vegum félagsins eru hannyrðasamverur á laugardagsmorgnum. Núverandi formaður Kvenfélags Hallgrímskirkju er Guðrún Gunnarsdóttir. Netfang hennar er: gudrun.gunnarsdottir1@gmail.is

Fyrir hönd starfsfólks og sóknarnefndar Hallgrímskirkju vil ég færa félaginu þakkir fyrir stórkostlega þjónustu í þágu safnaðar og kirkju Hallgrímssafnaðar. SÁÞ. 

Meðfylgjandi mynd er af skírnarfonti Leifs Breiðfjörð sem Kvenfélag Hallgrímskirkju gaf kirkjunni fyrir rúmlega tuttugu árum. Myndin var tekin í fjölskyldu- og friðarguðsþjónustu 6. mars 2022.