Vel heppnuð Orgelhátíð barnanna

04. október 2022
Fréttir

Dagana 25. sept. til 1. okt. var Orgelkrakkahátíð haldin í Reykjavík.

Organistarnir Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Guðný Einarsdóttir stóðu fyrir orgelkynningum, bæði skólaheimsóknum, tónleikum og smiðjum í tengslum við verkefnið Orgelkrakkar og orgelkrakkahátíðir víða um land.

Hátíðin í Reykjavík hófst með fjölskylduguðsþjónustu í Háteigskirkju sunnudaginn 25. september. Dagana á eftir var 2. bekk í öllum grunnskólum Reykjavíkur boðið á sýninguna Lítil saga úr orgelhúsi í þremur mismunandi kirkjum, Fella- og Hólakirkju, Grafarvogskirkju og Hallgrímskirkju. Lítil saga úr orgelhúsi er kynning fyrir börn á undraheimum pípuorgelsins og er tónlistarævintýri sem fjallar um pípurnar sem búa í orgelhúsinu. Tónlistin er spiluð á orgelið og myndir sýndar á skjá um leið og sagan er sögð af sögumanni, Bergþóri Pálssyni. Hátíðinni lauk í Hallgrímskirkju 1. október með tónleikum fyrir alla fjölskylduna kl. 12. Á tónleikunum voru frægustu orgelverk sögunnar leikin ásamt þekktum lögum úr kvikmyndum og Eurovision slagarar. Kynnirinn á tónleikunum heitir Guðmundur Einar Jónsson og er átta ára gamall. Guðmundur sagði tónleikargestum sögu á milli verka sem tengdust verkunum, til að mynda gengu sunnudagaskólafuglar niður kirkjugólfið undir brúðkaupsmarsinum. Á þriðja hundrað manns sóttu tónleikana.

Eftir tónleikana var boðið upp á orgelkrakkasmiðjur þar sem þátttakendum gafst kostur á að smíða lítið orgel og fengu að prófa að spila á það. Þátttakendur í smiðjunum voru á öllum aldri og yngsti þátttakandinn í smiðjunum var tveggja ára gamall.

Það var ókeypis á alla auglýsta viðburði Orgelkrakkahátíðar. Orgelkrakkahátíðin er styrkt af Barnamenningarsjóði, Tónlistarsjóði og Þjóðkirkjunni.