25 ára afmælishátíð Klais orgelsins í Hallgrímskirkju

12. desember 2017


Klais orgelið í Hallgrímskirkju, drottning hljóðfæranna, var vígt 13. des. 1992 og á því 25 ára afmæli um þessar mundir.

Því verður fagnað með óformlegum orgeltónleikum og spjalli á vígsluafmælisdaginn miðvikudaginn 13. desember kl. 20.

Organistar kirkjunnar, Hörður Áskelsson og Björn Steinar Sólbergsson, leika jólatónlist og önnur glæsileg verk tengd vígslu orgelsins, til að mynda verkið Snertur, sem Þorkell Sigurbjörnsson samdi fyrir Hörð í tilefni vígslunnar.

 

Alls hafa um 750 orgeltónleikar verið haldnir með Klaisorgelinu á þeim 25 árum síðan orgelið var vígt og það hefur einnig hljómað við athafnir og æfingar alla daga frá vígslu þess.

Orgelið hefur vakið heimsathygli fyrir vandaða smíði og fagran og glæsilegan hljóm og þykir mjög eftirsóknarvert að koma fram og fá að leika á orgelið. Margir fremstu organistar heims hafa komið fram á tónleikum á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju og Alþjóðlegs orgelsumars m.a. Olivier Latry, Hans- Ola Ericson, Gillian Weir, Daniel Roth, Gunnar Idenstam, Aveta Ipkalna, Christopher Herrick, Jean Guillou, Hans Fagius, Mattias Wager, Bine Bryndorf, Hannfried Lucke o.fl. og fjölmargir geisladiskar með erlendum og íslenskum organistum hafa verið teknir upp á Klaisorgelið. Árið 2012 var orgelið hreinsað og gert upp og bætt við það mjög eftirsóknarverðum MIDI tæknibúnaði, sem hefur gefið orgelinu óteljandi nýjar víddir.
Boðið verður upp á afmælisveitingar í suðursalnum eftir tónleikana. Aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar veitir Hörður Áskelsson, s. 693 6690.