95 greinar Lúthers í fyrsta sinn! 

30. október 2017
Þegar Marteinn Lúther negldi greinar sínar á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg 31. október 1517 hófst siðbótin. Hugmyndir Lúthers breyttu kirkjulífi, stjórnmálum og menningarlífi Evrópu. Nákvæmlega 500 árum síðar verða greinarnar 95 lesnar upphátt í Hallgrímskirkju. Þetta er í fyrsta sinn sem greinarnar eru lesnar í heyranda hljóði í kirkju á Íslandi og líklega í norðurhluta Evrópu. Prestar Hallgrímskirkju, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, lesa og skýra. Þessi sögulegi viðburður, sem er hluti Lúthersdaga, hefst kl. 12 mun taka um hálfa klukkustund.

Kirkjuklukkurnar hljóma en þær eru nú teknar í notkun eftir langa þögn og mikla viðgerð. Listgjörningur Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal heldur áfram og þar gefst fólki færi á að gera sína eigin tesu, prenta eða þrykkja og negla á dyr. Kl. 18 verða svo kirkjusöngvar í Hallgrímskirkju. Sálmar Lúthers og nýir sálmar verða sungnir. Siðbótarnefnd býður síðan afmælisveislu í Suðursal. Allir velkomnir á viðburði Lúthersdaga í Hallgrímskirkju.