Að gleymaFrægasta ræða bandaríska prédikarans Tony Campolo samanstendur af orðunum “Það er föstudagur og bráðum kemur sunnudagur”

Í veröldinni verður alltaf þetta þrungna hik milli gleði og sorgar – milli föstudagins langa og páska. Einn daginn er það krossinnn og þjáning en svo birtir til, upprisa í lífinu.  Stundum týnum við tímanum, missum sjónar á þessu samspili og gleymum okkur.
Náttúran okkar hefur fengið sinn skerf af gleymskunni og grandvaraleysinu, lífríkið og líka náungi okkar.
Kristinn boðskapur sem alla daga minnir okkur á nándina og umhyggjuna gagnvart náunganum.  Kærleikurinn sem er uppspretta lífs, elskunnar,  gleðinnar  og takmarka.  Já boðskapur kristinnar trúar snýst um elskuna og ekki síst á degi sem föstudeginum langa.

Það er föstudagur og bráðum verður sunnudagur .

Þessi orð um hikið, biðina og að gleyma ekki fléttast  saman við orð eins úr framvarðasveit síðustu vikna og jafnvel mánuða, Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.  Hann minnti okkur á skelfilega faraldra fyrri alda í nýlegu sjónvarpsviðtali.  Harmleikir sem í huga okkar eru sagnfræði, myrkar miðaldir en ekki tilheyra samtímanum.   Stóra bóla, svarti dauði, spænska veikin svo við nefnum sumt það sem lék forfeður okkar og formæður grátt.

Í viðtalinu fannst mér eins og við værum minnt  á þessa leið á milli föstudagsins og sunnudagins:  Orðrétt sagði hann:
„Þannig að sagan er uppfull af þessu. Menn höfðu bara gleymt þessu.“
Góð áminning - ekki gleyma.

------

Í göngutúr gærdagsins með góðri vinkonu gengum við göngustíga í einu hverfi borgarinnar.  Snjórinn getur ekki enn ákveðið sig hvort hann er að koma eða fara en undir hvítri ábreiðunni er fortíðin falin.  Flugeldar frá liðinum áramótum, allskyns dót og drasl sem birtist undan snjófarginu.  Snjórinn leggur hulu sína yfir fortíðina, yfir liðna daga en fortíðin er þarna enn.
Tímarnir eins og leggja hulu yfir fortíðina og bráðum gægist svo framtíðin upp úr sama jarðvegi.  Blómin sem koma upp, náttúran sem er komandi.
Tímarnir núna verða okkur örugglega gleymdir einhvern tíman og það er náðargáfa að gleyma en það er líka kærleikur í  því að muna, þakklæti .

Við gleymum og líka þó að ferðalagið okkar hafi bara verið milli ára og alda.  Þá gleymum við erfiðum tímum, hamförum, óáran jafnvel stríðum.  Nú síðast vorum við minnt á í fjölmiðlum og það sitja í huganum frásögur af snjóflóðinu á Neskaupsstað í desember 1974
Hvernig var hægt að gleyma þessu spyr ég mig, sorginni, skelfilegum aðstæðum, missinum, erfiðu árunum á eftir þegar fjölskyldur syrgðu,  samfélag syrgði.

Í dag  eins og svo oft áður erum við í þessum sporum og þar í skugga krossins, skýlandi skugganum á föstudeginum langa.

Þessi kross sem þarna stendur og aðeins hugur okkar sér og hjarta skynjar.  Í  dag stöndum við andspænis Jesú á krossi, andspænis honum sem þjáist – fyrir okkur.  Því megum við ekki gleyma....

a𠠄það er föstudagur og bráðum kemur sunnudagur”

Við erum á þessu ferðalagi  á meðan við eigum kannski ekki að ferðast. En við eigum ekki að hætta að horfa fram á við og læra af liðnum dögum.  Ferðin okkar núna er um dimma dali, sorg og missi, vonbrigði.  Kannski gerum við okkur grein fyrir vanmætti okkar aldrei meira en nú.  En finnum fyrir mætti okkar í vanmættinum.  Samtakamætti, mætti elskunnar og samstöðunnar og viskunnar.

Krossinn heldur utan um samstöðu okkar, krossinn sem breytti heiminum og heldur áfram að ummynda hann. Við erum í skjóli krossi Krists.

Föstudagurinn langi er dagur krossins en líka dagur mikilla krossgatna.  Það sem áður var verður aldrei aftur.
Sum þeirra sem stóðu við krossinn  forðum eru nefnd á nafn, önnur ekki.  Samstöðuhópurinn .
„En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði..."

Á þeirri stundu var hún að kveðja son og þau voru að kveðja ástvin
Í þessum sporum standa svo margir í dag í veröldinni sem endranær.

Og við viljum vera álengdar eins og konurnar forðum sem sagt var frá í guðspjallinu.
Þær voru líka álengdar hinn fyrsta dag vikunnar þegar þær komu að gröf frelsarans, álengdar voru þær þar.  Þær voru tilbúnar, áræðnar, óttaslegnar og sorgmæddar.   Þær voru mættar að gröfinni til að vera, sinna og sýna elsku og umhyggju.  Þær voru álengdar en ekki fjarlægar.   Þannig eru margir líka í dag.

Í framhaldi af þessu veltum við því fyrir okkur hvort kirkja Krists hafi í raun alltaf þegið að vera í nálægð krossins,  fundið lífskraftinn sem krossinn gefur -
sáttina, víðsýnina, umburðarlyndið,  elskuna.  Og svo er það verkefni okkar að fara þaðan, frá krossinum  í átt til upprisunnar .

Það er föstudagur og bráðum kemur sunnudagur.

Við skulum stefna  til sunnudagsin í fylgd og á ferð með þeim og því sem við höfum gleymt og því sem við höfum ekki gleymt.  Þjáningin er ekki horfin sjónum, ekki sorgin er en við þiggjum kraft af samstöðunni, álengdar.

Smátt og smátt eignumst við kjark til að horfast í augu við erfiða tíma, óréttlæti – sigra illa með góðu, láta ofbeldi ekki líðast.  En það fer vafalaust samt sem áður svo margt úrskeiðis áfram.  Þó við lærum að nefna hlutina, skilja betur óréttlætið þá erum við samt sem áður vanmegna.   Viðurkennum það en þiggjum áræðið og elskuna sem krossinn stendur fyrir.   Sigur lífsins yfir dauðanum, yfir óttanum, yfir skjólleysi og kuli hatursins.  Við skulum stefna þangað öll, í skjól krossins og  þangað eigum við erindi öll

Hugsum til versins í 47. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar
"Komið svo konur og menn,
að krossinum Jesú senn,
þó nauðin þrengi þrenn,
það fæst nóg lækning enn."

Við erum stödd núna í þessari fallegu byltingu kærleika krossins
"Krists börn eru kross börn"

stendur sömuleiðis  í 47. Passíusálmi.

Föstudagurinn langi er dagur krossins en líka dagur stórra krossgatna og það sem áður var verður aldrei samt.

Föstudagur brátt á enda, það kemur  sunnudagur.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðaveita hjörtu okkar og hugsanir í samfélaginu við Jesú Krist.  Amen

Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Prédikun flutt í útvarpsguðsþjónustu á föstudaginn langa 2020