Aðventu & jólatónleikaröð Hallgrímskirkju 2022

21. nóvember 2022
Fréttir

Aðventu og jólatónleikaröðin hefst með tónleikum Kórs Hallgrímskirkju sunnudaginn 27. nóvember kl. 17 sem bera yfirskriftina BACH Á AÐVENTUNNI.

Öll verkin á tónleikunum eru eftir Johann Sebastian Bach og er aðalverkefnið kantatan Nun komm, der Heiden Heiland BWV 61 fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Kantatan verður einnig flutt í Kantötuguðsþjónustu í kirkjunni kl. 11 á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu.
Auk þess flytur kórinn mótettuna Lobet den Herrn, alle Heiden, BWV 230 , Elfa Rún Kristinsdóttir leikur einleik í Fiðlukonsert í a-moll, BWV 1041 og Björn Steinar Sólbergsson leikur 3 sálmaforleiki yfir sálmalagið Nun komm, der Heiden Heiland eða Nú kemur heimsins hjálparráð.

Flytjendur auk Kórs Hallgrímskirkju eru Barokkbandið Brák, einsöngvararnir Harpa Ósk Björnsdóttir sópran, Eggert Reginn Kjartansson tenór og Fjölnir Ólafsson barítón, Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari. Stjórnandi á tónleikunum er Steinar Logi Helgason.

Laugardaginn 3. desember kl. 12-15 verður orgelmaraþon undir yfirskriftinni: KLAIS ORGELIÐ Í 30 ÁR – CÉSAR FRANCK 200.
Í tilefni af 30 ára vígsluafmælis Klais orgelsins í Hallgrímskirkju og 200 ára fæðingarafmælis César Franck heiðra 12 organistar minningu eins mikilvægasta tónskálds orgeltónbókmenntanna með heildarflutningi á orgelverkum hans.
Flytjendur eru: Björn Steinar Sólbergsson, Erla Rut Káradóttir, Eyþór Franzson Wechner, Friðrik Vignir Stefánsson, Guðný Einarsdóttir, Kári Þormar, Kitty Kovács, Kjartan Jósefsson Ognibene, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Matthías Harðarson, Steinar Logi Helgason og Tuuli Rähni.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Sunnudaginn 18. desember kl. 17 verður bryddað upp á nýjung í jólatónleikahaldi Hallgrímskirkju sem nefnist SYNGJUM JÓLIN INN!
Að syngja jólin inn er vel þekkt á Englandi og víða á Norðurlöndunum.
Þar gefst kirkjugestum kostur á að undirbúa jólahátíðina með því að syngja marga af ástsælustu jólasálmum þjóðarinnar auk þess að hlýða á fallegan kórsöng.
Kór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Steinars Loga Helgasonar en auk þess fáum við góða gesti frá Breiðholtskirkju og Neskirkju í Reykjavík.
Fram koma: Kór Hallgrímskirkju, Kór Breiðholtskirkju, Kór Neskirkju, Björn Steinar Sólbergsson, Steinar Logi Helgason, Steingrímur Þórhallsson og Örn Magnússon.
Kórarnir syngja hver í sínu lagi en mynda líka einnig saman 100 manna kór sem mun án efa heilla kirkjugesti.
Prestar safnaðanna taka þátt í tónleikunum með lestrum úr ritningunni og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir blessar söfnuðinn í lok tónleikanna.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

ORGELTÓNLEIKAR Á JÓLUM. 26. desember – Annan í jólum kl. 17 leikur Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju á Klais orgel kirkjunnar vinsæl orgelverk eftir Johann Sebastian Bach, Claude Balbastre, César Franck og Charles-Marie Widor sem tengjast fæðingu frelsarans.

HÁTÍÐARHLJÓMAR VIÐ ÁRAMÓT á Gamlársdag hafa um árabil notið mikilla vinsælda í tónlistarlífi Hallgrímskirkju. Í ár gefst tónleikagestum kostur á að njóta hátíðlegara tóna fyrir orgel og málmblásarakvartett í ljósaskiptunum á síðasta degi ársins. Tónleikarnir hefjast kl. 16.
Flytjendur eru: Gunnar Kristinn Ólafsson og Ólafur Elliði Halldórsson sem leika á trompeta, Gunnar Helgason og Steinn Völundur Halldórsson leika á básúnur og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel.

Allar nánari upplýsingar á;
www.hallgrimskirkja.is