Afhending söfnunarfés í messu

22. janúar 2018
6 milljónir til hjálparstarfs og kristniboðs



Við messu í Hallgrímskirkju 21. janúar voru Hjálparstarfi kirkjunnar og Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga afhentar formlega 6 milljónir króna sem söfnuðust í Hallgrímkirkju á sl. ári.

Um 20 ár eru liðin frá því farið var að gera tilraunir með messusamskot í Hallgrímskirkju og urðu þau fljótlega að föstum lið. Í fyrra safnaðist í almennun messum, árdegismessum og jólasöfnun um ein milljón króna til hjálparstarfs og kristniboðs, auk þess sem safnað var í messum til fleiri góðra málefna á árinu. Á jólafundi sóknarnefndar var ákveðið að úthluta 4 milljónum króna úr Líknarsjóði kirkjunnar til hjálpastarfs og kristniboðs, en sjóðurinn hefur tekjur sínar af framlögum, bænastjaka og söfnunarbauknum Grænu tunnunni.  Auk þess bað Hallgrímssöfnuður Hjálparstarf kirkjunnar að koma 1 milljón króna úr Líknarsjóði í landssöfnunina „Vinátta í verki“ til stuðnings þeim sem áttu um sárt að binda vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi aðfararnótt 18. júní þegar flóðbylgja gekk yfir smáþorpið Naarsuuiaq. Hamfarirnar kostuðu fjögur mannslíf og gífurlegt eignatjón.

Kristín Ólafsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og Kristján Þór Sverrisson hjá Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga tóku við framlagi Hallgrímssöfnuðar og fluttu ávörp.

Einar Karl Haraldsson, gjaldkeri safnaðarins, minnti sérstaklega á innanlandsstarf Hjálparstarfsins sem hefði fært mörgum tækifæri til þess að brjótast út úr vítahring fátæktar og menntunarskorts, og sagði m.a. við þetta tækifæri:  „Við hér í Hallgrímssöfnuði höfum valið Hjálparsstarfið og Kristninboðssambandið sem meginfarvegi fyrir hjálpar- og boðunarstarf vegna þess að við treystum þeim og við vitum að þessar stofnanir hafa til að bera fagþekkingu og réttu tengslin innanlands sem á alþjóðavettvangi til þess að rækja köllun sína þannig að þeir fjármunir sem hér safnast komi í réttan stað niður og gagnist sem best.“