Í anddyrinu - ný sýning Karlottu Blöndal

06. mars 2020

Karlotta Blöndal
Í anddyrinu / Gathering
8. mars. – 24. maí. 2020




Myndlistarsýning Karlottu Blöndal, Í anddyrinu, verður opnuð í forkirkju Hallgrímskirkju á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sunnudaginn 8. mars 2020 við messulok kl. 12:15.

Sýningin er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju og sýningarstjóri er Rósa Gísladóttir.
Allir eru hjartanlega velkomnir og verða léttar veitingar í boði Hallgrímssafnaðar.

Anddyri er sérstakur staður, einskonar staður á undan stað, sem vekur upp spurningar um aðliggjandi rými og hverjir hafi aðgang að þeim vistarverum. Anddyri Hallgrímskirkju er opið þeim sem vilja og þangað streyma inn ferðamenn frá öllum heimshornum. Fyrir vorsýningu Hallgrímskirkju voru valin verk sem mynda samtal við þetta sérstaka rými. Sum verkin hafa verið sýnd áður, önnur eru ný eða áður ósýnd en öll koma hér saman líkt og ferðalangar. Hvert verk er stef úr stærra samhengi, frá öðrum tíma, sem fær að mynda nýja heild, eins og lína í ljóði sem finnur sér stað í nýju ljóði árum síðar.

Fáninn sem rammi utan um innri eða ytri sögn er gegnumgangandi vísun í á sýningunni. Sýningin opnar 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, hún er opin á pálmasunnudag, á skírdag, föstudaginn langa, páskadag, annan í páskum og einnig á baráttudegi verkalýðsins 1. maí, og er opin allt fram að uppstigningardegi. Allir þessir dagar munu lita skynjun og túlkun á verkunum, þau eflast með þeim sem ferðast um rýmið á hverjum tíma, straumi fólks til og frá, hreyfingum ytra og innra.

Karlotta Blöndal býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö, Háskólanum í Lundi, 2002. Hún hefur sýnt víða, hér á landi og utan landsteinanna auk þess unnið að ýmsum verkefnum og þverfaglegum samstörfum í myndlist. Verk hennar eru unnin í margs konar miðla; teikningu, málverk, innsetningar, prent og gjörninga þar sem hún skoðar hugmyndir um víddir, tengslin milli hins efnislega og andlega og mörkin milli þess hlutbundna og óhlutbundna. Verkin eru yfirleitt unnin eða sett upp með samhengið og sýningarstaðinn í huga.

Heimasíða: www.karlottablondal.net

Sýningin stendur til 24. maí 2020 og er opin alla daga kl. 9 - 17 (mars/apríl) og kl. 9 - 21 (maí).