Messa eftir kosningar

24. september 2021
Messa og barnastarf sunnudaginn, 26. september hefjast kl. 11. Sr. Eiríkur Jóhannsson þjónar fyrir altari og prédikar. Messuþjónar aðstoða. Organisti Tómas Guðni Eggertsson. Kvartett forsöngvara. Umsjón barnarstarfs: Kristný Rós Gústafsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir. Í barnastarfinu verða haustverk - fræjum sáð! Sunnudagurinn er 17. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Textar dagsins eru skv. þriðju textaröð:

Lexía: Préd 3.1-13
Öllu er afmörkuð stundog sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

Pistill: Róm 14.14-19
Það veit ég með fullri vissu í trúnni á Drottin Jesú að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér nema þá þeim sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt. Ef bróðir þinn eða systir hryggist sökum þess sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni sem Kristur dó fyrir.
Látið því ekki hið góða sem þið eigið verða fyrir lasti. Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. Hver sem þannig þjónar Kristi er Guði velþóknanlegur og í metum hjá mönnum.
Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið.

Guðspjall: Mrk 2.15-17
Svo bar við að Jesús sat að borði[ í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“ Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“