Björn Steinar sextugur

27. september 2021
Höfðinginn við orgelið, Björn Steinar Sólbergsson, er sextugur í dag. Hann hefur þjónað Hallgrímskirkju sem organisti frá árinu 2006. Björn Steinar Sólbergsson fæddist á Akranesi 27. september 1961. Hann lauk stúdentsprófi frá tónlistarbraut Fjölbrautaskóla Vesturlands. Síðan stundaði hann nám við Tónlistarskólann á Akranesi og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Meðal kennara hans var Haukur Guðlaugsson. Síðan fór Björn Steinar til framhaldsnáms á Ítalíu og í Frakklandi. Björn Steinar starfaði sem organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju frá 1986 og í 21 ár eða þar til hann varð organisti við Hallgrímskirkju 2006. Hann varð tónlistarstjóri kirkjunnar frá því í júní 2021. Björn Steinar er einnig skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar.

Björn Steinar er helsti konsertorganisti Íslendinga og hefur verið í áratugi. Hann hefur haldið mikinn fjölda einleikstónleika á Íslandi, á Norðurlöndunum, á meginlandi Evrópu og í Norður Ameríku. Þá hefur hann leikið með fjölda hljómsveita bæði heima og erlendis. Meðal stórvirkja Björns Steinars eru upptökur á orgelverkum Páls Ísólfssonar og Jóns Leifs. Eiginkona Björns Steinars er Hrefna Harðardóttir, myndlistarkona. Dætur þeirra Hrefnu eru Linda Ólafsdóttir (stjúpdóttir) og Sólbjörg Björnsdóttir, M.A í liststjórnun í Leiden í Hollandi.

Söfnuður, sóknarnefnd og starfsfólk Hallgrímskirkju óskar Birni Steinari til hamingju með afmælið og þakkar honum öll hans störf og afrek í þágu kirkjunnar.

Nánar um Björn Steinar Sólbergsson á vef Morgunblaðsins í dag - að baki þessari smellu. Mynd SÁÞ af Birni Steinari Sólbergssyni.