Fréttir

Friðargjörningur

Tónleikar voru haldnir í Hallgrímskirkju 8. mars til að tjá samstöðu með Úkraínumönnum. Fjöldi listamanna og ræðumanna sungu, töluðu og tjáðu frið. Friðargjörningurinn var samstarfsverkefni margra aðila og Hallgrímskirkja var einn þeirra. Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar, lagði raunar til að viðburðurinn yrði í kirkjunni. Flest starfsfólk kirkjunnar kom að undirbúningi og framkvæmd þessa friðargjörnings og Kór Hallgrímskirkju söng.

Þær bökuðu upp kirkjuna!

Kvenfélag Hallgrímskirkju er 80 ára í dag. Félagskonurnar hafa þjónað söfnuðinum stórkostlega og lagt til fé til starfs kirkjunnar. Þær "bökuðu upp kirkjuna" og lögðu kirkjunni til búnað til helgihalds og safnaðarlífs.

Friðartónleikar þriðjudag kl. 18

Friðartónleikar í Hallgrímskirkju verða þriðjudaginn 8. mars kl. 18. Fram koma Ragnar Kjartansson, Bubbi Morthens, KK, Ellen Kristjánsdóttir, Þorsteinn Einarsson í Hjálmum, Alexandra Chernyshova, Kór Hallgrímskirkju, Eyþór Gunnarsson, Sigga, Beta og Elín Ey og Jói P. og Króli. Ávörp flytja Kári Stefánsson og Cristofer Cristofer. Úkraínumenn sæta nú miskunnarlausum árásum af hálfu nágranna sinna, Rússa. Komum saman og sýnum samhug okkar með úkraínsku þjóðinni og líka með rússneskum almenningi sem mætir grimmd og harðræði fyrir að mótmæla innrásinni. Þessi mikli harmleikur snertir okkur öll. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og hægt verður að kveikja á friðarljósi fyrir Úkraínu.

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar 6. mars

Æskulýðs- og friðarguðsþjónusta

Öskukross á enni á öskudegi

Fjöldi fólks fékk kross á enni í Hallgrímskirkju í dag. Þrjátíu og tvö voru í morgunmessu í kór kirkjunnar. Ekki aðeins var gengið til altaris heldur voru öll signd með öskukrossi. Eftir messu stóðu svo prestar kirkjunnar og kirkjuverðir við kórtröppur og tóku á móti ferðafólki sem kom í kirkjuna. Mörg þeirra þekktu táknmál öskudags, að öskukrossinn er ekki aðeins tákn iðrunar heldur minnir á fagnaðarerindið um Jesú Krist. Djúp kyrrð myndaðist í kirkjunni. Þegar fólk hafði gengið fram og notið helgiþjónustunnar settist fólk gjarnan, bað og íhugaði. Tár sáust á hvörmum nokkurra. Mörg stoppuðu við ljósberann, kveiktu bænaljós og skrifuðu bænir og skildu eftir. Önnur tendruðu friðarkerti. Hvort sem fólk er íslenskt eða kemur að utan er það pílagrímar á lífsferð. Þau sækja í helgidóminn – og í dag fóru mörg þeirra með kross á enni.

Biðjum fyrir friði í Úkraínu

Fjöldi fólks kemur í Hallgrímskirkju á hverjum degi og tendrar kertaljós og biður fyrir öllum þeim sem líða vegna stríðs í Úkraínu. 

Pútínlandið – ferðir á föstu

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Prédikun Sigurðar Árna Þórðarson á sunnudegi í föstuinngangi, 27. febrúar, 2022.

Kvöldkirkjan - friðar- og bænakerti tendruð

Kvöldkirkja sunnudagskvöldið 27. febrúar kl. 20-22. Íhugun á heila og hálfa tímanum. Tónlist: Kira, Kira. Friðar- og bæna kerti tendruð.

Kveikjum friðarljós

Rússar hafa ráðist inn í Úkraínu. Friðarathöfn verður í Hallgrímskirkju kl. 18. Kveikt verður á friðarkertum. Allir geta fengið kerti og kveikt á friðarljósum. Lesinn verður friðartexti, leikið verður á orgel kirkjunnar og klukkuspilið í turni hennar. Við innrás og stríð er mikilvægt að veita sterkum tilfinningum í farveg orða og tjáningar. Að kveikja friðarljós í Hallgrímskirkju er gjörningur í þágu friðar. Við getum líka kveikt friðarbál þjóðarinnar með því að kveikja ljós í gluggum húsa okkar. Hallgrímskirkja verður opin til kl. 19, fimmtudaginn 24. apríl.

Guðsþjónusta og barnastarf 20. febrúar kl.11 Biblíudagurinn

Guðsþjónusta 20. febrúar kl.11 Biblíudagurinn