Auður Perla Svansdóttir - minning

Auður Perla kom jafnan brosandi í hús. Þegar hún kom í Hallgrímskirkju til æfinga eða starfa tók hún kveðjum vel og svaraði með hlýju. Frá árinu 2008 söng Auður Perla í Mótettukór Hallgrímskirkju og tók því virkan þátt í helgihaldi og listalífi kirkjunnar. Hún varð heimamaður í safnaðarstarfinu, samverkakona starfsfólksins og góður liðsmaður. Fyrir messur á sunnudagsmorgnum kom hún með bros á vör, lagði gott til og hélt svo hátíð í hliði himinsins. Auður Perla var traust og því kjörin til formennsku í kórnum. Hún var lausnamiðuð, lagin og ábyrg. Auður Perla lést 6. janúar síðastliðinn aðeins 52 ára. Hennar er sárt saknað. Fyrir hönd Hallgrímskirkju, starfsfólks og safnaðar, þökkum við allt sem Auður Perla lagði til Hallgrímskirkju. Við biðjum góðan Guð að varðveita hana og styrkja ástvini hennar og okkur öll.
Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson