Barnið í garðinum - og nýtt líf

26. febrúar 2021
Guðsþjónusta og barnastarf í Hallgrímskirkju sunnudaginn 28. febrúar 2021 kl. 11. 2. sunnudagur í föstu. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt Irmu Sjöfn Óskarsdóttur. Messuþjónar aðstoða. Organisti Björn Steinar Sólbergsson. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Kristný Rós Gústafsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir stýra barnastarfinu.

Í prédikuninni verður rætt um um börn í fornöld en líka í Reykjavík samtíma okkar. Kynnt verður ný uppvaxtarsaga Sævars Þórs Jónssonar, Barnið í garðinum, sem kemur brátt út og varpar ljósi á uppvaxtaraðstæður margra íslenskra barna. Bókin spyr margra áleitinna spurninga um gæði samfélags og tengsl fólks.

Forspil: Sálmforleikur - Víst ert Jesú, kóngur klár  Páll Ísólfsson

41 Víst ert Jesú, kóngur klár

7 Ó, hvað þú Guð, ert góður

133 Jesús eymd vora alla sá

 

Kórsöngur eftir prédikun:

Krossferli að fylgja þínum Róbert A. Ottóson / Hallgrímur Pétursson (Ps. 11)

56 Son Guðs ertu með sanni

Eftirspil Ostinato Páll Ísólfsson

Þriðja textaröð

Lexía: Okv 4.23-27
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru
því að þar eru uppsprettur lífsins.
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum
og vörum þínum fjarri lygamálum.
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er.
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum.
Víktu hvorki til hægri né vinstri,
haltu fæti þínum frá illu.

Pistill: Op 3.10-13

Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Guðspjall: Mrk 9.14-29
Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“ En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“ Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“ Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“ Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“ Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur. Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“