Bókagjöf, karlakór og barnakór í messu sunnudagsins

03. desember 2015


Annan sunnudag í aðventu, 6. desember nk. verður margt um að vera í tengslum við messu og barnastarf sunnudagsins kl. 11.00.  Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju undir stjórn Ásu Valgerðar Sigurðardóttur syngja og leiða söng. Í messunni verður 7 ára börnum í Hallgrímssókn afhent að gjöf bókin "Jólin hans Hallgríms" eftir Steinunni Jóhannesdóttur.  Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt rev. Leonard Ashford og hópi messuþjóna. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.  Barnastarfið er í umsjá Ingu Harðardóttur, Rósu Árnadóttur og Sólveigar Önnu Aradóttur

Sálmarnir sem verða sungnir eru:
Nr. 560 Við kveikjum einu kerti á ( 2 erindi)
Nr. 733 Hósíanna lof og dýrð
Nr. 64 Vakna Síons verðir kalla
Nr 66 Hefjum upp augu og hjörtu með
Nr. 96 Fögur er foldin.

Á annarri hæð kirkjunnar verður síðan hægt að skoða sýninguna "Jólin hans Hallgríms" eftir messu.
Sýningin byggir á samnefndri bók Steinunnar Jóhannesdóttur og myndum Önnu Cynthiu Leplar og var jólasýning Þjóðminjasafnsins árið 2014. Þar eru myndir og textar úr bókinni ásamt gamaldags munum sem vísa til sögunnar. Gestir geta leikið sér að leggjum og skeljum eins og Hallgrímur og systkini hans gerðu fyrir 400 árum og hlustað á jólasálminn vinsæla “Nóttin var sú ágæt ein” sem Hallgrímur lærir í sögunni.