Blátt tímabil í Hallgrímskirkju

12. september 2020
Margar kirkjudeildir heimsins beina athygli á haustin að náttúrunni sem Guð hefur skapað. September og fyrri hluti október er tími sköpunarverksins í þjóðkirkjunni. Í Hallgrímskirkju hefst þetta tímabil með guðsþjónustunni 13. september og lýkur með helgihaldinu 11. október. Auk áherslu á ríkidæmi lífríkisins og mikilvægi þess að við verndum lífheiminn verður athyglinni beint að vatni veraldar. Kirkjulífið í Hallgrímskirkju verður því blátt. Prestar kirkjunnar munu tala um náttúruvernd og sérstaklega um vatn í prédikunum í guðsþjónustum og helgistundum og sungnir verða náttúruvænir sálmar. Á fjórum þriðjudagsfundum kl. 12,05 í kirkjunni mun Sigurður Árni Þórðarson tala um vatn. Fyrsti þriðjudagsfundurinn verður 15. september.