Borg Guðs og danskir söngsveinar í messu 5. júlí

01. júlí 2015


Í messunni 5. júlí, 2015 syngur auk félaga úr Mótettukórnum drengjakór frá Danmörk, Syngedrengene í Vor Frue Kirke í Assens. Stjórnandi er Finn Pedersen og undirleikari Irina Natius. Dr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Hirti Pálssyni. Íhugunarefni í prédikun dagsins verður borg Guðs, en sýning Rósu Gísladóttur með sama heiti er í forkirkjunni. Messuþjónar aðstoða í athöfninni. Organisti er Eyþór Franzson Wechner. Sálmar og kórsöngur í messunni:

Forspil

22 Þú, mikli Guð ert með oss á jörðu

Kórsöngur – graduale: Nu bede vi den Helligånd - eftir  M. Pedersön

224 Hallelúja, dýrð sé Drottni

591 Ó, Guð, ég veit hvað ég vil

----

Kórsöngur: Laudate Dominum Ps. 117, 1-2, eftir Niels la Cour

47 Gegnum Jesú helgast hjarta

Kórsöngur undir úteilingu: Panis angelicus eftir C. Franck.

712 Dag í senn eitt andartak í einu

Textar þessa sunnudags skv. textaröð B

Lexía: Jer 15.19-21


Þess vegna segir Drottinn:
Viljir þú snúa við sný ég þér
svo að þú getir aftur þjónað mér.
Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg
skaltu vera munnur minn.
Þá leita menn til þín
en þú mátt ekki leita til þeirra.
Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Pistill: Post 26.12-20


Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru.
Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

Guðspjall: Matt 16.13-26


Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“
Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“
Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“
Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“
Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“
Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur.
Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi.
En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“
Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“
Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?