Boðunardagur Maríu: Guðsþjónusta, tíðasöngur og tónleikar

19. mars 2021

Guðsþjónusta – Fyrirlestur – Tónleikar – Tíðasöngur




Kl.11 Guðsþjónusta og barnastarf á boðunardegi Maríu
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum
Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja.
Organisti: Björn Steinar Sólbergsson.
Barnastarf er í höndum Kristnýjar Rósar Gústafsdóttur og Ragnheiður Bjarnadóttir.

kl. 17.30 Tónleikar
´Suite du Deuxième ton´ eftir franska barokktónskáldið
Louis-Nicolas Clérambault & Magnificat - Lofsöngur Maríu.
Flytjendur: Björn Steinar Sólbergsson, orgel &
sönghópurinn Cantores Isalandiœ; stjórnandi Ágúst Ingi Ágústsson.

Kl. 18 Aftansöngur - Vesper
Prestur er sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir.
Glúmur Gylfason leiðir þátttakendur.
í tengslum við aftansönginn verður Glúmur Gylfason með fyrirlestur kl. 16.30 um bók sína „Íslenskur tíðasöngur“.

Dagskrá í samvinnu Hallgrímskirkju og Tónskóla Þjóðkirkjunnar

Allir velkomnir

 



Cantores Islandiae 

Sönghópurinn Cantores Islandiae var stofnaður í Reykjavík haustið 2018 af Ágústi Inga Ágústssyni og Gísla Jóhanni Grétarssyni. Hópurinn leggur áherslu á gregorssöng í verkefnavali sínu en  einskorðar sig þó ekki við hann. Stjórnandi kórsins er Ágúst Ingi, en hann hefur lagt stund á gregorssöng um nokkurt skeið. Ágúst Ingi starfaði sem organisti hjá kaþólsku kirkjunni í Hafnarfirði 1993-2000 og var stjórnandi gregorskórsins Cantores Iutlandiae í Danmörku árin 2011-2018.



Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík og tekur virkan þátt í blómlegu listastarfi kirkjunnar. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.

Björn Steinar stundaði tónlistar­nám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.

Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum norðurlöndunum, í Evrópu og norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands,  Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.

Á þessu ári kemur Björn Steinar fram á tónleikum á Íslandi, í Finnlandi, Þýkalandi og Noregi.

Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfs­sonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.

Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Listamannalaun 1999 og 2015.

Víxlflutningur (in alternatim)

Sú hefð að flytja kirkjusönginn in alternatim, eða til skiptis milli söngvara og orgels, varð hin viðtekna venja á 15.-17. öld á Ítalíu, Spáni, Niðurlöndum og í Frakklandi. Í stað þess að syngja allan texta tiltekins söngs í guðsþjónustunni var versunum skipt milli orgelsins og kórsins. Í raun var einfaldlega um að ræða útfærslu á hinum hefðbundna víxlsöng þar sem versum var skipt milli tveggja kóra eða milli kórs og forsöngvara. Notast var við þetta fyrirkomulag jöfnum höndum í messunni og tíðasöngnum en það var sérstaklega algengt við flutning á lofsöng Maríu, líkt og við heyrum dæmi um í dag. Tilgangurinn var að auka á fjölbreytileikann og draga úr einhæfni auk þess að hvetja til íhugunar. Til eru fjöldamörg „Magnifiköt“ eftir evrópsk tónskáld frá þessum tíma því til sönnunar. Þessi víxlflutningur gerði töluverðar kröfur til organistans sem þurfti að geta reitt fram fjölmörg spunnin tónverk á orgelið á milli hinna sungnu versa. Þannig gat organisti við tiltekna kirkju þurft að spinna allt að 100 tónverk á dag og hann gat þurft að spila um 400 guðsþjónustur á ári hverju. Þetta hafði í för með sér mjög hraða þróun í bæði spuna- og tónsmíðatækni, sem og orgelsmíði. Þessi hefð festi sig svo rækilega í sessi í kaþólsku kirkjunni að árið 1600 gaf Clemens VIII páfi út tilskipun þar sem beinlínis voru gefin fyrirmæli um að syngja skyldi tiltekna söngva in alternatim en einnig var kveðið á um það hvaða söngva mætti ekki flytja með þessu móti. Fyrirmæli páfa voru á þá leið að hljóðfæratónlistin skyldi auka við áhrif textans – bæði þess texta sem tónlistin leysti af hólmi og þess sem sunginn var á móti. In alternatim hefðin var við lýði allt til upphafs 20. aldar þegar hún var alfarið lögð af með tilskipun Píusar X páfa árið 1903.

Louis-Nicolas Clérambault var hirðorganisti Lúðvíks IV. Frakklands­konungs og þar með samtímamaður Johanns Sebastian Bachs. Clérambault var afkastamikið tónskáld fyrir kirkjuna, samdi kantötur, mótettur og verk fyrir orgel. Það er þó fátt líkt með þessum tónskáldum þar sem grundvallarmunur var á hlutverki orgelsins á barokktímanum í Frakklandi annars vegar og í  Þýskalandi hins vegar.

Franska orgeltónlistin mótaðist af helgisiðum kaþólsku kirkjunnar þar sem Gregors­söngur var í öndvegi. Þar voru þjálfaði sönghópar (Schola) sem önnuðust kirkju­sönginn og söfnuðinum ekki boðið að syngja með. Orgelið, sem var staðsett í vestur­enda kirkjunnar kallaðist á við sönghópinn við altarið í austurenda. Í Þýskalandi Lúthers var aftur á móti höfuðáhersla lögð á sálmalagið og þar með þátt­töku safnaðarins í almennum söng. Organistinn hafði þar með mikilvægt hlutverk að leiða söfnuðinn í söng en jafnframt að leika orgelverk byggð á grunni sálmalagsins eins og sálmaforleiki og sálmapartítur.