Erkibiskup Svía prédikar í Hallgrímskirkju

Dr. Antje Jackelén prédikar í Hallgrímskirkju sunnudaginn 21. október. Tilefni komu erkibiskupsins er fundur norrænna biskupa á Íslandi sem og þátttaka í ráðstefnunni Arctic Circle. Frá 2014 hefur Antje Jackelén verið höfuðbiskup sænsku evangelísk-lúthersku kirkjunnar. Áður þjónaði hún sem prestur í Stokkhólmi og Lundbiskupsdæmi. Hún lauk doktorsprófi í trúfræði frá háskólanum í Lundi og starfaði m.a. um tíma sem háskólakennari við LSTC, lúthersku guðfræðideildina í Chicago. Antje Jackelén var biskup í Lund-biskupsdæmi á árunum 2007-2014. Prédikunarefni hennar í Hallgrímskirkju er Jóhannesarguðspall 4.46-53. Hún fjallar um umhverfismál, afstöðu sænskra biskupa og hvernig trú tengist lífi fólks og veraldar og þar með talið umhverfismálum.