EXIT

04. apríl 2021


Ég var sjö ára gamall. Vorið var komið og börnin í götunni voru úti. Það var fjör á Tómasarhaganum. Eldri strákar, sem ég þekkti, komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna. Það var galsi í hópnum og ævintýraleiðangur hófst. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og einn úr hópnum sneri sér að mér og skipaði mér að að klifra upp í skottið. Ég hlýddi og þá var skottlokinu skellt aftur. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út!“ En strákarnir hlógu. Svo heyrði ég að þeir fóru, lokuðu bískúrshurðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran. Ég hafði verið úti, í birtu og undir berum himni frelsis og gleði. Allt í einu var ég strand í myrkri og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki vísaði veg í myrkrinu. Engin neyðarútgangur og ógerlegt að opna læsingu á skottlokinu. Mér tókst ekki heldur að spyrna því upp. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt? Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina? Ég komst að því að það væri það eina sem ég gæti gert. Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom einn af sökudólgunum og opnaði skottið. Hann hljóp svo burt. Ég brölti úr fangelsinu. Mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamleg og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun.




Lokun




Innilokun er vond og getur valdið fólki djúptækum sálarskaða. Lokun getur verið með margvíslegu móti í lífi okkar manna. Við getum lokast í ofbeldissambandi eða í fangelsi fíkna. Vonska fólks getur farið illa með viðkvæmar sálir. Valdakerfi og hagsmunakerfi geta kramið. Áföll, veikindi og slys verða mörgum fjötrar. Kærleiksskert fólk kremur.





Oft hefur verið spurt hvað væri það hræðilegasta við það sem fólk túlkar sem helvíti? Svarið hefur löngum verið að þar væri engin neyðarútgangur, ekkert exit. Hið hræðilegasta af öllu skelfilegu er lokaður veruleiki. Dauðinn. Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni. Hann var þó ekki einn heldur í hlutverki sem fulltrúi allra manna. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Allt búið, engin útleið?




Út




Nútíma hús er svo gerð að fólk á ekki að geta lokast inni. Neyðarútgangar eru í byggingum og líka í kirkjum. Til að leiðbeina fólki eru sett upp flóttaleiðarmerki. Á þeim er gjarnan mannvera á hlaupum. Þar er líka ör fyrir stefnu og oftast ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru líka í flugvélum og skipum. Merkin eru græn á Íslandi og í mörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. Neyðarútgangur stendur á sumum hinna íslensku. Erlendis stendur gjarnan EXIT á merkjunum. Þau eru vegvísar sem er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og reykur fylli hús.




Flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð. Þeim má treysta og stefnan út úr ógninni er gefin. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg? Jesús Kristur var ekki haminn af neinum festum. Grafhvelfingin hélt honum ekki föngnum. Dauðinn dó en lífið lifir. Trúin sér í Jesú Kristi leiðina út úr heftingum. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn. Ekkert vinnupuð er honum framandi. Ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er við hlið fólks í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar og í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi okkar þegar við dettum, tekur á móti þegar við hrösum. Við erum laus úr skottinu því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Páskar 2021




Einkennismyndina tók ég af mynd á flóttamannasýningu í listasafni í Oakland í Kaliforníu, OMCA.