Eyþór Franzson Wechner kemur fram á Orgelsumrinu 10. júlí

09. júlí 2021
Eyþór Franzson Wechner organisti við Blönduóskirkju og nærsveitir, leikur verk eftir Sigurð Sævarsson, Heinrich Scheidemann og Alexandre Guilmant á hádegistónleikum Orgelsumarsins nú á laugardaginn, 10. júlí. Miðasala er í fullum gangi á tix.is en einnig er hægt að kaupa miða við innganginn. Miðaverð er 2000 krónur en ókeypis er fyrir börn, 16 ára og yngri.

Eyþór fæddist á Akranesi. Hann byrjaði að læra á píanó 7 ára gamall en skipti 14 ára yfir á orgel, í fyrstu undir leiðsögn Úlriks Ólasonar en síðar hjá Birni Steinari Sólbergssyni við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Eftir tvö ár í Listaháskólanum hélt hann til Þýskalands. Við “Hochschule für Musik und Theater Leipzig” lauk Eyþór Bachelor of Arts gráðu í orgelleik árið 2012 og Master of Arts gráðu árið 2014 við sama skóla. Helsti kennari hans í Leipzig var Prof. Stefan Engels. Eyþór er nú starfandi organisti Blönduósskirkju og nærsveita, kennir við Tónlistarskóla A-Húnavatnssýslu og við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Eyþór hefur komið fram á einleikstónleikum á Íslandi, Þýskalandi og í Ástralíu.