Ferðagleði!

12. júní
Ferðagleði
 
Það var glaðlegur hópur sem lagði upp í dagsferð frá Hallgrímskirkju miðvikudaginn, 5. júní sl.
Ferðinni var heitið austur fyrir fjall og áfangastaður var Hruni í Hrunamannahrepp. Sr. Eiríkur Jóhannsson prestur í Hallgrímskirkju var leiðsögumaður og kunnur staðháttum enda fyrrum sóknarprestur þeirra í Hruna.
 
Í Hruna var stutt helgistund í kirkjunni og síðan borðuðum við síðbúna morgunhressingu í notalegu safnaðarheimili við Hrunakirkju. Sóknarnefndarformaðurinní Hrunasókn, Marta Esther Hjaltadóttir tók vel á móti okkur.
Úr Hruna lá leiðin að Tungufellskirkju og þar sagði er. Eiríkur okkur frá þessari litlu fallegu kirkju sem er þjónað frá Hrunaprestakalli. Og sálmurinn fallegi “Son Guðs ertu með sanni” hljómaði í kyrrðinni innan um áratuga sögu sem rituð er í viði og gripi í gamalli sveitakirkjunni .
Þaðan var ekið að Laugarvatni og þar snæddum við hádegisverð í Hérðsskólanum, þessu fallega húsi sem nú hýsir gistiheimili og matsölustað.
Síðan lá leiðin heim um þjóðgarðinn á Þingvöllum heim í Hallgrímskirkju –
“Hver vegur að heiman er vegur heim “, orti Snorri Hjartason og við vorum þakklát sem í rútunni sátum góðum Guði fyrir fegurð landsins okkar þennan dag sem endranær.
Sólin gladdi geð okkar og leiðsögumaðurinn sr. Eiríkur miðlaði okkur margskonar fróðleik um land og þjóð. Kærar þakkir fyrir góðan dag og samferð.
 
Myndirnar gera ferðinni betri skil, fegurðinni í kirkjununum og veðurblíðunni í uppsveitum Árnessýslu.
 
Ekki spillti það fyrir gleðinni að Hjörtur Pálsson guðfræðingur og skáld átti afmæli þennan góða dag svo afmælissöngurinn hljómaði í dansandi sólargeislum þennan fallega snemmsumardag.