Fögnuður í frelsishöllinni

29. janúar 2021
„Gleðilega hátíð.“ Það voru kveðjurnar sem hljómuðu þegar prestar Hallgrímskirkju komu á Droplaugarstaði. Það var sannarlega tilefni til gleðilegra ávarpa. Við vorum komin til að halda guðsþjónustu fyrir heimilisfólk og starfsfólk á stórheimilinu við Snorrabrautina. Fólkið á Droplaugarstöðum hefur ekki fengið að hittast vegna heimsfaraldurs og sóttvarnarreglna í tíu og hálfan mánuð. Þau hafa ekki fengið að koma á sal til helgihalds og ekki heldur borðað saman. En nú er allt breytt. Þau eru búin að fá báðar bóluefnissprauturnar. Þau eru með mótefni gegn veirunni og eru frjáls til mannfagnaða.

Þrátt fyrir COVID-tíma hafa prestarnir og Kári Bjarnason, píanóleikari og söngvari, komið mánaðarlega á Droplaugarstaði og þjónað við guðsþjónustur. En það hafa verið rafrænar samverur. Engir hafa verið í sal heldur hefur verið sjónvarpað á hæðir og í herbergi. Þegar allt heimilisfólkið er komið með mótefni gátum við hist, horfst í augu, sungið og glaðst. Það var stemming á Droplaugarstöðum þegar fólk frelsisins fagnaði í þessari stórhöll frelsisins. Reynslan staðfesti fyrir okkur klerkum og starfsfólki Droplaugarstaða að nú fer að birta og sér til enda þessa sóttvarnatíma. Við tökum að vísu bara eitt skref í einu en þetta var mikilvæt skref fyrir okkur sem nutum samverunnar á Droplaugarstöðum. Já, takk fyrir okkur og gleðilega hátíð.

Guðsþjónusta á Droplaugarstöðum, 28. janúar 2021. sáþ