Framundan í Hallgrímskirkju 1.-7. október

01. október 2020























































Framundan í Hallgrímskirkju


 

1. október


Í hádeginu á morgun, fimmtudag, verður kyrrðarstund í kirkjunni með sama sniði og verið hefur undanfarin ár. Stundin hefst kl. 12 á því að Björn Steinar Sólbergsson organisti leikur hugljúfa tóna og sr. Sigurður Árni Þórðarson flytur síðan hugvekju og bænir. Vegna Covid hefur ekki verið súpa í Suðursal eins og venja hefur verið en fyrir þá sem vilja eru kaffi og kleinur í boði.

Á fimmtudagskvöldið er unga fólkið í aðalhlutverki. Klukkan 19.30-21.30 koma saman nemendur úr 8.-10. bekk í kirkjunni og eiga saman skemmtilega stund með Kristnýju Rós og Hildu Maríu. Það er margt spennandi framundan í æskulýðsstarfinu og allir 8.-10. bekkingar eru velkomnir.


2. október


Í hádeginu á föstudaginn, kl. 12, er safnast saman við ljósberann í kirkjunni til fyrirbæna. Þetta eru notalegar og fallegar stundir í kirkjunni okkar.



Skálholt á föstudaginn. Grænir söfnuðir koma saman í Skálholti til kolefnisjöfnunar og umræðna um umhverfismál. Dagskráin hefst kl. 14 í Skálholti með gróðursetningu trjáa og svo verður örþing um kolefnismál. Létt hressing kl. 17.30.

Ferðamáti í Skálholt fer eftir fjölda þátttakenda svo vinsamlegast sendið póst á sigridur@hallgrimskirkja.is ef þið hafið áhuga á að koma með. Allir velkomnir.


3. október


Á laugardaginn verður orgel matinée kl. 12 á hádegi. Björn Steinar organisti leikur verk eftir Johann sebastian Bach og Felix Mendelssohn Bartholdy. Sr. Sigurður Árni flytur ritningarlestur og bæn.


4. október


Á sunnudaginn verður guðsþjónusta og barnastarf kl. 11. Sr. Sigurður Árni prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju leiða safnaðarsöng. Barnastarfið er í höndum Kristnýjar Rósar djákna.


5. október


Á mánudag verður bænastund í hádeginu kl. 12 með Sigrúnu Valgerði Ásgeirsdóttur.


6. október


Hádegisfræðsla með sr. Sigurði Árna.



Hver á vatnið? Hvað um eignarrétt og vatnarétt? Lögin um Þingvelli segja í fyrstu grein að Þingvellir skuli vera „friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.“ Hvað þýðir svona ljóðrænt helgistaðamál? Þingvellir voru kirkjueign. Á kirkjan þá vatnið eða er það ríkið sem á alla dýrðina og þar með kristalstært vatnið í gjánum, vatnsbirgðir framtíðar Íslands? Hverjir eiga vatn? Hefur kristnin eitthvað að segja um vatn og nýtingu þess?
Verið velkomin í hádegisfræðsluna.
Kaffi og kleinur í Suðursal að stundinni lokinni.


7. október


Foreldramorgnar eru í kórkjallara Hallgrímskirkju alla miðvikudaga kl. 10-12. Komið er saman með börnin og spjallað, sungið og leikið. Dásamlegar morgunstundir. Og allir foreldrar velkomnir með börnin sín.

 

Klukkan 12 á miðvikudögum eru guðsþjónustur í kór Hallgrímskirkju. Meiri þátttaka kirkjugesta er við þessar guðsþjónustur en í almennum guðsþjónustum á sunnudögum.


Verið hjartanlega velkomin í allt kirkjustarf Hallgrímskirkju