Föstudagurinn langi

01. apríl 2021
Hallgrímskirkja er opin á föstudaginn langa milli kl. 11.00 og 15.00.
Kirkjan er opin fyrir þau sem eiga leið um, vilja koma við og dvelja um stund í þögninni.  Altarið hefur verið afskrýtt og altarisklæðið með blæðandi brjósti pelíkanans hefur verið sett upp og hökull með ísaumuðu fyrsta versi Passíusálmanna settur fram.  Hvort tveggja listaverk Unnar Ólafsdóttur.

Hughrif dagsins eru nærri því að himininn felli tár, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og gleðin dregur sig í hlé og heimur Guðs heldur niðri í sér andanum um stund, hljóðnar.  Tónlistin er líka í þögninnni, Guð talar í þögninni.

Föstudagurinn langi, hinn góði föstudagur eða heilagi  eins og hann heitir upp á enska tungu.  Í barnsminni var hann undurlangur, ekkert mátti gera, varla neitt fara, vinnandi hendur fengu hvíld.  Bara vera, hlusta eftir gangi dagsins, leyfa honum að líða og sjá lífið breytast úr gráma þessa dags til hátíðar páskanna.
Á þessum degi þá er eins og illska heimsins, tilgangleysi mannfórna og skortur á kærleika og umburðarlyndi renni fyrir augum eins og myndband, saga, ljóð eða tregafullir tónar.