Fyrsta guðsþjónusta sumarsins

15. maí 2020


Nú er komið að því að við getum safnast saman í Hallgrímskirkju,
reynslunni ríkari til samfélags í húsi Guðs og taka þátt í sálmasöng og bæn.

Fyrsta messa sumarsins verður í Hallgrímskirkju 17. maí kl. 11.00. Irma Sjöfn og Sigurður Árni þjóna fyrir altari, organisti er Hörður Áskelsson og félagar úr Mótettukórnum leiða söng. Í kirkjunni verða tvö aðskilin svæði sem hægt er að ganga inn á beint frá hliðum kirkjuskipsins. Við höldum fjarlægð og reglum almannavarna og tilmælum sóttvarnarlæknis verður fylgt í hvívetna.

Eftirvænting ríkir í Hallgrímskirkju að koma saman til guðsþjónustu eftir erfiða tíma og á óvissutímum.
Komandi sunnudagur er hinn almenni bænadagur og við biðjum saman fyrir lífinu, fólkinu okkar, óvissunni, framtíðinni, umhverfinu og veröldinni. Við þökkum hversu farsællega við höfum verið leidd á óttalegum og oft ruglingslegum tímum. Samfélagið um Guðs borð bíður um stund en altarið í kirkjunni mun sem endranær minna okkur á samfélagið og nærveru Guðs. Þar loga ljósin sem minna okkur á ljós heimsins, Krist.  Ljósið sem aldrei dvín og hefur fylgt okkur á óvissutímum.


Sálmarnir sem verða sungnir eru:

718  Nú heilsar vorsins blíði blær

945 Sjá vorsins bjarta veldi

166 Fræ í frosti sefur

904 Ég á vin
  Faðir vor sungið (nr. 953 )

946 Nú strýkur vorið völl og dal.

Velkomin í Hallgrímskirkju