Fyrsta orgelmaraþon Íslandssögunnar

21. ágúst 2022
Fréttir
Björn Steinar Sólbergsson - SÁÞ

Reykjavíkurmaraþon var hlaupið á Reykjavíkurgötum á laugardagsmorgni 20. ágúst en orgelmaraþon fór fram í Hallgrímskirkju síðdegis sama dag og stóð fram á kvöld. Hlaupin hafa verið frá árinu 1984 en orgelmaraþonið 2022 er það fyrsta í Íslandssögunni þar sem margir organistar koma að flutningi! Tilefnið var sextugsafmæli Björns Steinars Sólbergssonar. Hann er ekki aðeins organisti Hallgrímskirkju heldur n.k. orgelpabbi nýrrar kynslóðar organista á Íslandi. Hann hefur kennt stórum hluta organista þjóðkirkjunnar. Þrettán úr þeim hópi kantora, sem Björn Steinar hefur kennt, tóku þátt í orgelmaraþoninu. Orgelmaraþonið var runa afmælisgjafa. Prestar kirkjunnar kynntu flytjendur og litríka dagskrá sem gaf innsýn í sögu orgeltónlistar heimsins og Íslands einnig. Dagskráin er að baki þessari smellu. Kirkjan var opin og þúsundir, á öllum aldri, komu í hlið himins. Margir sátu lengi og aðrir röltu um kirkjuna í kyrrð og nutu helginnar, himinhljóma og birtunnar. Börnin lituðu kórónur á kirkjutröppunum og þrykktu mikið handverk í forkirkjunni meðan pabbi og mamma eða afi og amma hrifust af tónlistinni. Þau sem komu í kirkjuna tjáðu hrifningu og þakklæti. Reykjavíkurmaraþonið gladdi og Hallogrímskirkjumaraþonið var glæsilegt. Er orgelmaraþon einstakur atburður eftir COVID eða verður það reglulega á dagskrá í framtíðinni? Lof sé Birni Steinari Sólbergssyni og þökk sé nemendum hans sem eru mikilvægir tónlistarlífi þjóðkirkjunnar og menningarlífi Íslands. Klais-orgelið er líka góður þjónn. SÁÞ

Meðfylgjandi mynd tók Hrefna Harðardóttir við upphaf orgelmaraþons. Efri röð frá vinstri : Matthías Harðarson, Sveinn Arnar Sæmundsson, Arngerður María Árnadóttir, Thuuli Rähni, Björn Steinar Sólbergsson, Agnes M. Sigurðardóttir, Stefán Helgi Kristinsson, Eyþór Franzson Wechner, Örn Magnússon og Erla Rut Káradóttir. Neðri röð frá vinstri: Jón Bjarnason, Jóans Þórir, Steinar Logi Helgason. Á myndina vantar: Elísabetu Þórðardóttur og Kára Allansson sem einnig spiluðu á maraþoninu.