Ég elska þig

22. desember 2020
Fæðingarfrásaga Jesú Krists er helgisaga sem er lesin um alla heimsbyggðina á jólum. Sagan er upphafin, litrík og ævintýraleg, saga um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Hvernig á að skilja eða túlka þessa sögu? Á hún erindi við nútímafólk? Það er engin ástæða til að taka skynsemi, gagnrýna hugsun og sjálf úr sambandi þótt við njótum jólanna og verðum jafnvel meyr. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu en þau mál eru meira rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1 eða árið 0 eða fjórum árum eða sex fyrir tímatal okkar sem er vissulega kennt við Kristsburð. En hver er þá nálgunin? Helgisögur eru rammi um inntak. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og til okkar.

Stef, ímyndir og minni helgisögunnar þjóna ávallt þeim skilaboðum sem miðla á. Við getum skrælt burt það sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega. Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um guðsnánd en eru ekki sjálfkrafa lengur. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni sem var eins og stýrikerfi. Það stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið skildist og hvernig ætti að segja frá til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin sem stýrði þá rétt eins og við lifum og stjórnumst af íslensku samhengi og vestrænni menningararfleifð nú.

Jólaboðskapur helgisögunnar er um að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins með orðum eða í skilaboðum eða samfélagsmiðlum heldur kemur í eigin persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapinn um of? Nei, helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trú þráum við samt öll hið mennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til speki og gilda sem eru veröldinni lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar sem við höfum lært að kæfa. Jólin eru tími gjafa en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið. Tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða heldur þvert á móti. Nóttin er rofin barnsgráti sem tjáir erindi jólanna: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.“

Gleðileg jól má líka segja með orðunum: Ég elska þig.

Hugleiðing Sigurðar Árna Þórðarsonar birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2020. Mynd SÁÞ tekin í helgileik Melaskóla í Neskirkju.