Góðir gestir í Hallgrímskirkju

12. september 2018
Það var fjöldi góðra gesta í messunni í Hallgrímskirkju síðastliðinn sunnudag. Sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup annaðist þjónustuna ásamt prestinum okkar, sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur. Organistar í messunni voru Hörður Áskelsson organisti Hallgrímskirkju, Jónas Þórir organisti Bústaðakirkju og Marit Agnes Nordahl Nergaard sem lék eftirspilið. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju leiddu sönginn ásamt félögum úr kór Bústaðakirkju og þátttakendum á organistastefnu söngmálastjóra þjóðkirkjunnar.

Sérstakur gestur í messunni var norska tónskáldið Trond Kverno sem hefur samið mikið af kirkjutónlist, jafnt sálma sem stór kórverk, og var öll tónlist messunnar eftir hann. Kverno stjórnaði kórnum í þremur kórverkum eftir hann sjálfan; Kristur Jesús sem við sjáum, Ave verum corpus og Salutaris Hostia.

Það er alltaf ánægjulegt að fá góða gesti til að taka þátt í helgihaldi Hallgrímskirkju og færum við gestum sunnudagsins okkar bestu þakkir fyrir þátttökuna.