Gjöf Grímseyinga endurgoldin

23. september 2022
Fréttir
Grétar Einarsson yfirkirkjuvörður í Hallgrímskirkju og Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar Hallgrímssafnaðar við klukknaspilið í Hallgrímskirkjuturni. Mynd: Fréttablaðið

HALLGRÍMSSÖFNUÐUR OG VINIR ENDURGJALDA GRÍMSEYINGUM GJÖF FRÁ ÞVÍ FYRIR 50 ÁRUM

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur haft forgöngu um að safna fyrir nýjum kirkjuklukkum í Miðgarðakirkju sem verið er að reisa í Grímsey. Kirkjan sem fyrir var brann til grunna að kvöldi 21. septembers 2021. Kirkjuklukkurnar tvær úr bronsi í Miðgarðakirkju bráðnuðu í eldinum þannig að ekkert varð eftir heillegt nema kólfarnir sem eru úr járni. Haustið eftir brunann efndi Hallgrímskirkja til samskota vegna kirkjubyggingar í Grímsey í þremur messum. Sérstakar tengingar er um að ræða meðal annars vegna þess að Grétar Einarsson yfirkirkjuvörður, er sonur Einars Einarssonar listasmiðs sem var um sex ára skeið djákni í Grímsey og setti mikinn svip með verkum sínum á Miðgarðakirkju þau 14 ár sem hann bjó í eynni. Síðar varð að ráði að gefa Miðgarðarkirkju klukkur í stað þeirra sem bráðnuðu og er af því einstök saga. Með þessu framtaki er Hallgrímssöfnuður ásamt vinum að endurgjalda með táknrænum hætti gjöf sem gefin var Hallgrímskirkju fyrir hálfri öld í nafni Grímseyinga.

Þann 25. september næstkomandi verða söfnunartónleikar í Hallgrímskirkju undir heitinu „Hljómar frá heimsskautsbaugi“ þar sem norðlenskir stórsöngvarar og tónlistarfólk koma fram. Þar er um að ræða Eyþór Inga Jónsson organista og söngvarana Ívar Helgason, Jónas Þór Jónasson, Kristjönu Arngrímsdóttur, Óskar Pétursson og Ösp Eldjárn. Þau hafa áður efnt til slíkrar söfnunar í Akureyrarkirkju vegna nýrrar Miðgarðakirkju. Auk þess taka Björn Steinar Sólbergsson organisti, Steinar Logi Helgason kórstjóri og Kór Hallgrímskirkju þátt í tónleikunum.

Það sem á kann að vanta upp á að söfnunarfé dugi fyrir kostnaði við steypu á nýjum klukkum stendur Hallgrímskirkja straum af.

15 dís“390 Frá Grímseyjingum. Gefandi V.F. Stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga ákvað þegar á árinu 1942, í miðri heimsstyrjöld, að gefa Hallgrímskirkju stóru klukkurnar þrjár sem kenndar eru við Hallgrím Pétursson, Guðríði Símonardóttur, konu hans, og dóttur þeirra Steinunni sem lést í barnaæsku. Það var svo ekki fyrr en rúmum 30 árum síðar, 10. mars 1971, að klukkurnar þrjár voru afhentar með viðhöfn í turni Hallgrímskirkju. Tæpum mánuði síðar, 2. apríl, var klukkuspilið afhjúpað með sínum 29 bjöllum af mismunandi stærðum. Samið hafði verið um gerð þess þegar gengið var til þess að panta stóru klukkurnar og söfnun hafin fyrir kostnaði við það. Klukkurnar 29 í klukknaspilið gáfu ýmis samtök atvinnurekenda, fyrirtæki og athafnafólk af ýmsum sviðum, svo og Kvenfélag Hallgrímskirkju, sem aldrei hefur látið sig vanta í söfnunum.* Á einni klukkunni, sem merkt er 15 dís“390, stendur: Frá Grímseyjingum. Gefandi V.F. Þar mun vera um að ræða Vigfús Friðjónsson, síldarsaltanda, útgerðar- og athafnamann. Vigfús var „einn umsvifamesti og sérkennilegasti atvinnurekandi sem sögur fara af...“ eins og segir í fróðlegri grein Örlygs Kristfinnssonar, frumkvöðuls Síldarminjasafns Íslands, sem lesa með því að slá inn í leitarvél á Netinu: Vigfús Friðjónsson síldarsaltandi.

Royal Eijsbouts steypir nýjar klukkur í Miðgarðakirkju Í 9. bók ritraðarinnar Kirkjur Íslands er þetta sagt um klukkur Miðgarðakirkju: "Klukkur tvær úr kopar hanga á ramböldum í turni. Sú minni er með mikilli áletrun og skrauti, steypt í Kaupmannahöfn 1799, en sú stærri er frá 1862. Klukkurnar munu hafa verið fengnar frá Siglufjarðarkirkju fyrir miðja 20. öld, en litlar klukkur leturlausar sem áður voru í kirkjunni, voru seldar Laugarneskirkju í Reykjavík árið 1957." Stærri klukkan var 37 sm. að þvermáli en sú minni 32 sentímetrar.

Til álita kom að leita að gömlum klukkum sem gætu komið í stað þeirra sem bráðnuðu. Í samráði við Hjörleif Stefánsson arkitekt og Alfreð Garðarsson, formann sóknarnefndar í Grímsey, var þó horfið að því ráði að leita hófanna um nýsteypu á klukkum. Lá þá beinast við að snúa sér til Royal Eijsbouts í Asten í Hollandi, en sú konunglega klukkusteypa á sér rúmlega 150 ára sögu. Eijsbouts hefur steypt allar klukkur Hallgrímskirkju og annast viðhald þeirra af kostgæfni. Gert er ráð fyrir að nýjar klukkur komi til landsins í vor og miðað við að Hallgrímssöfnuður afhendi þær Miðgarðakirkju í safnaðarferð til Grímseyjar um Jónsmessuleytið næsta sumar.** Kostnaður við klukkurnar í heild er metinn á 2,5 – 3 milljónir íslenskra króna.

SAMANTEKT: Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar Hallgrímssafnaðar.

*Athafnafólk og samtök gáfu 29 bjöllur í klukknaspilið föstudaginn 2. apríl 1971

Úr Sögu Hallgrímskirkju eftir Sigurð Pálsson bls. 61 og 62:

Föstudaginn 2. apríl 1971 fór önnur afhending kirkjuklukkna fram í turni Hallgrímskirkju. Við hönnun klukknaportsins hafði verið gert ráð fyrir klukknaspili auk samhringingarklukknanna. Hafði klukknasbilið verið pantað um leið og kirkjuklukkurnar og söfnun fyrir því hafin þá þegar. Um var að ræða klukknaspil með 29 bjöllum sem hver fyrir sig ómar einn tón og spanna þær því töluvert tónsvið, frá tvístrikuðu c til fjórstrikaðs f.

................

Benedikt Gröndal, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, afhenti klukknaspilið fyrir hönd gefenda sem voru fjölmargir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, og eru nöfn gefenda rituð á klukkurnar. Gefendur voru Vinnuveitendasamband Íslands, Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Kvenfélag Hallgrímskirkju, Olíuverslun Íslands, Kaupmannasamtök Íslands, Smjörlíki hf., ónefnd hjón á Suðurlandi, Guðmundur Guðmundssson í Víði, Ársæll Jónsson kafari, Múrarameistarafélag Reykjavkur, Sigurbergur Árnason framkvæmdastjóri, Vigfús Friðjónsson útgerðarmaður o.fl. , Kjartan Guðmundsson stórkaupmaður, Minning Þuríðar Ólafsdóttur, Stefán Árnason garðyrkjumaður, Páll V.G. Kolka læknir og frú Guðbjörg Guðmundsdóttir, séra Erlendur Þórðarson, Magnús Kristjánsson og frú, Jóhann Marel Jónsson o.fl. , Björgvin Grímsson o.fl., Guðrún og Carl Rydén kaupmaður, Þóroddur Jónsson stórkaupmaður, Kristrún Jónsdóttir o.fl. , Guðný Gilsdóttir frá Dýrarfirði og I &H.

** Ráðgerð áletrun á nýjar kirkjuklukkur í Miðgarðakirkju

1799 1852 2021 2023

HLJÓMAR FRÁ HEIMSKAUTSBAUGI

(1): HJARTANLEG ÁSTAR ÞAKKARGJÖRÐ

HP Ps.3

(2): BÆNIN MÁ ALDREI BRESTA ÞIG

HP Ps.4

Frá Hallgrímssöfnuði og vinum

ROYAL EIJSBOUTS 2023