Guð – og gott samband

06. október 2020
Hvað er hægt að gera á þessum COVID-tíma hertra sóttvarnareglna? Í stað þess að láta skuggana lita sálarlífið getum við ákveðið að leggja rækt við það sem skiptir okkur máli, ástvini, hugðarefni og það sem gleður og eflir. Að fara í kirkju styrkir fólk, líka á álagstímum.

Í október verður Hallgrímskirkja opin frá kl. 11-14. Vegna hertra sóttvarnaraðgerða stjórnvalda fellur niður auglýst helgihald fyrir fullorðna í október, þ.e. guðsþjónustur, bænastundir, kvöldkirkja, sunnudagaskóli, foreldramorgnar og fullorðinsfræðsla. Tónleikar falla einnig niður. Barnastarfið sem heldur áfram er fermingarfræðsla á miðvikudögum og unglingastarfið á fimmtudögum.

Þó auglýstar athafnir verði ekki í Hallgrímskirkju í október er kirkjan áfram bænahús. Það er gott að sækja í kyrru helgidómsins til að stilla huga, biðja, íhuga, kveikja kerti, hlusta á tónlist orgels eða veðurs og njóta síbreytilegs ljósaleiks himinsins utan glugganna. Hægt er að hafa samband við presta kirkjunnar vegna samtala eða athafna. Starfsfólk kirkjunnar verður til taks.

Gerið svo vel að nýta Hallgrímskirkju. Verið velkomin í hlið himins.

Prestar og starfsfólk Hallgrímskirkju