Guð á vaktinni

02. janúar 2021
Prédikun við aftansöng á Gamlársdegi 2020

Nú hafa stjörnuaugu jólanæturinnar dofnað í ljósadýrð heimsins að sinni.
Við erum við bjartsýn.
Kyrrðin í fjárhúsinu hefur verið rofin og starandi augu í myrkrinu, mas og bras í kringum nýfætt barn og foreldrana.  Ungu konuna sem treysti og svo var það ungi karlmaðurin sem vissi varla sitt rjúkandi ráð.  En bæði sýndu elsku og voru ábyrgðarfull í hlutverkum sínum.
Táknmál og birta jólafrásögunnar miðlar bjartri sýn á ókomna daga. Þess vegna skulum við ekki strax skilja við hana. Orðfærið kunnuglegt og táknin svo skýr.
Guðspjall gamlársdag, það  er um viðsnúning, breytingar á hlutverkum, ný orð.
Ljúfir og kátir tónar jólalaga deyja út í stökki yfir á nýtt ár.  Þar sem við ætlum að finna  fótfestu og ætlum að hafa allt betra en á því ári sem við erum að kveðja.
“Enn fossa tímarnir
fram af hvassri brún "

Þannig orðaði Hannes Pétursson tímamót í ónefndu ljóði í bók sinni “Fyrir kvölddyrum”

Tímans foss og við erum við enda árs sem byrjaði eins og flest önnur ár svona yfir höfuð.
En við  fórum við að læra ný orð um ástand sem var okkur ókunnugt, nýtt atferli þar sem við mændum hvert á annað í stað þess að heilsast, reyndum að láta augnaráð segja allt, hlý orð og sátt.  Létum olnboga snertast og jafnvel tókum létt dansspor til að láta fætur heilsast svona innanfótar.  Við vorum eiginlega frekar ráðalaus í heimi nýrra merkinga
Kannski bara svolítið týnd og ekki bara við heldur heimurinn allur á tíma faraldurs.

En lærðum við eitthvað sem við viljum taka með okkur inn í nýtt ár ?
Spurningin sem leitar á hugann við hver áramót.
Hef ég á þessari ferð lært eitthvað nýtt um Guð.  Hefur hann fengið nýja nýja merkingu í mínu lífi. Nálgast ég Guð öðruvísi, snertir Guð veröldina öðruvísi eða bara lét hann sig hverfa í sóttvarnarskini....

Nei, við þennan tímans fossanið erum við kölluð til samtals, kölluð að borði, veisluborði í guðspjallssögunni sem Sigurður Árni las hér áðan.
Þar er talað um þjóna sem bíða herra síns sem er á leið heim úr veislu.  Þarna kíkja þeir út og bíða.  Svo kemur hann, sjálfur herrann og í gleði sinni yfir þessum vakandi þjónum þá bíður hann þeim til veislu, þjónar til borðs spariklæddur.
Og við gætum heyrt hann segja þegar hann læðist inn um dyrnar í nóttinni.
“Ánægður með ykkur “

Herrann var sáttur við þjónana sína. Þeir stóðu vaktina, þekktu Guð sinn og skapara, lásu í tímans tákn, opnir fyrir umhverfi sínu.
Það urðu hlutverkaskipti í nóttinni.  Herrann verður þjónn og þjóninum er þjónað af herranum.  Orð og hugmyndir fá nýja merkingu þó að áminning um að vera á verði hverfi ekki.

Guðspjallssfrásögur búa oft yfir töfraþræði sem túlkar nýjar víddir, nýja framtíð og skilning á hverjum tíma. Guð er aldrei alveg sá sami, hann eins og fléttast í gegnum tímans rás með sinn töfraþráð.  Þess vegna eigum við fund við hann bæði þegar áföll henda, þegar allt gengur í haginn og þegar veröldin fer á hvolf.  Þegar að við skiptum um hlutverk þá finnum við Guð sem er tilbúin að skipta um hlutverk.  Þegar veröldin fer á hvolf, hvort sem það er einkaveröldin eða stóra samhengið þá reynum við að setja Guð í nýtt samhengi.

Fyrir nokkrum dögum heyrði ég kunnuglegt orð sett í nýtt í samhengi af Davíð Kristinssyni björgunarsveitarmaður á Seyðisfirði.
„Guð sá um sitt og nú er komið að rík­is­stjórn­inni,“
Góð útskýring á flóknu samspili manna,  samfélags og skapara.  Verk Guðs er það sem ekki verður oft komið auga á fyrr en eftir á því maður gleymir stundum að gá.

En í heimabæ Davíðs er stórt sár eftir skriðuna sem spannar 200 metra og við heyrum af í fréttum.  Það er líka stórt sár í huga fólksins sem bjó undir hlíðinni, sár í huga, minni og minningum.  Er það kannski líka þannig í þínum huga, er þar stórt sár í minni og minningum.
Tilfinningar sem okkur finnst við reyndar svo oft þurfa að úttala okkur um.  En tilfinningarnar, þær eru viðkvæmar.

Í stuttri frásögu Rowan Willliams í nýlesinni bók  (Justice and love: A philosophical dialogue) þá veltir hann upp orðum og merkingu orða.  Í tengslum við það segir hann frá þar sem verið var að hjálpa börnum að setja upp bæna- og íhugunarstað á skólalóðinni.
Að því loknu voru börnin spurð – hvers þau væntu af þessum staðm hvað ætlið þið að gera hérna ?
Ein lítil, kannski svona átta eða níu ára svaraði þá , þegar ég verð mjög reið eða sorgmædd þá ætla ég að fara hingað og horfa á tilfinningarnar mínar.  Eins og oft áður þá hitti barnið  naglann á höfuðið.
Í stað þess að sleppa þeim út í veröldina við þá benti hún á að það væri kannski gott að skoða þær, velta fyrir okkur orsök og uppruna, fara vel með þær, virðum þær...  búum okkur undir að bera þær á torg.  þangað eiga þær skilið að fara þangað en virðum þær fyrst fyrir okkur, virðum þær, gefum okkur tíma til að standa vörð um sárar tilfinningar, söknuð og vanmátt reiðinninnar.  Búum okkur undir lífið sem heldur áfram.  Búum okkur undir framtíðina. Förum að dæmi þjónanna í söguni og verum tilbúin að fara til móts við óvissuna, klár í nýtt ferðalag....

“ Það er tilgangur í hverri ferð sem er ókunnur eða hulinn ferðalangnum “
voru orð guðfræðings Dietrich Bonhoeffer – sem lést í útrýmingarbúðum nasista.
Lítum eftir þeim tilgangi á nýju ári.

Það er köllun okkar sem kirkju að halda loga trúarinnar vakandi á öllum tímum, bæði þeim fordæmalausu og líka undir þrástefi endurtekningarinnar, hinum gráa hversdagsleika sem er okkur líka haldreipi.   Við sem viðhöldum ekki Guði í þessari veröld, það er Guð sem viðheldur okkur.

Að lesa í merkingu og tákn er eðli trúarinnar.  Skynja tíðarandann sem er andblær samtímans, nærveru samferðafólks og horfa í kring um okkur.  Vera vakandi og halda ekki að eitthvað sé of lágkúrulegt eða of merkilegt til að leita merkingar í.  Reyna að lesa veröldina í ljós Guðs.  Muna Jesú sem læddist inn í hús þeirra sem margir fyrirlitu eða höfðu ýmigust á.  Tollheimtumenn og syndara, konur og útlendingar, Samverjar og bersyndugir.  Öll þessi  safnheiti fyrir þau sem sem ekki féllu í kramið.

Hið frelsandi orð, öll nýyrðin í samtíma Jesú sem hafa kannski of staðnaða merkingu í dag.  Orð sem áður innblésu svo marga réttindabaráttu trúarinnar, þjóðernis, kyns, eðaþeirra þrælbundnu í hlekki fátæktar eða mansals.

En...
"Sá friður sem við þráum
festir ekki rætur í heiminum
Sviði úrræðaleysis smýgur
inn í smæstu bein okkar...

Enn fossa tímarnir
fram af hvassri brún:"    (Hannes Pétursson)

 

Beljandi og þungi -  þessa tímans foss heyrist við áramót, treginn verður fyrirferðameiri – margt hefur breyst.

Við þurfum að horfa til baka og kannast við tímana sem okkur líka ekki, verkin sem okkur líka ekki.  Mannfólkið sem okkur líkar ekki við eða strauma tímans sem okkur finnst að hafi brugðið af leið.

Minning um það sem áður var er lærdómur, fortíðin má ekki gleymast.  Í fortíðinni býr mikil elska. Minning, um um manneskjur og afrek eða látlaust líf elsku og kærleika.  Eða þá að það vekur upp sára tilfinningar sem þarf að horfast í augu við eða hluti sem enginn hélt að gætu orðið.

Í þessu felst allt það sem best verður sagt við áramót – á göngu okkar til móts við nýtt ár.  Kannski með örlitlum kvíða að það hverfi sem byggt hefur verið upp með striti og vinnu formæðra og forfeðra og okkar sjálfra.

En vonin býr í krafti hvers manns, frumleika, sköpunargáfu, hugmyndaauðgi .
Í ljósi þess hlökkum við til að takast á við nýjan dag, ný verkefni, nýja ferð og samfylgd með skapara okkar og leiðtoga, Kristi.
Treystum því eins og hann Davíð minnti okkur á að Guð sjái um sitt….

Þakkir.
Í kvöld, á gamlárskvöldi -  langar mig fyrir hönd kirkjunnar okkar að flytja þakklæti til allra þeirra sem gera starfið hér í Hallgrímskirkju mögulegt, starfsfólki kirkjunnar, þeim sem sinna kirkjuvörslu, fjárhaldi og umsjón, organistum og kórstjórum kirkjunnar.  Þakkir til þeirra sem halda utan um stjórn safnaðarins, sóknarnefnd, sjálfboðaliðar.  Kvenfélagið okkar og þeirra  óeigingjarna starf.  Kórunum okkar sem gefa ómælt af hæfileikum, messuþjónum, safnaðarfólki og aðrir sem gefa tíma sinn og hafa staðið vaktina.  Þið sem við söknum svo núna en við vitum af ykkur og við hlökkum til að hitta ykkur í kirkjunni okkar.
Guð laun og þakkir til ykkar allra

Guð gefi ykkur öllum gleðilegt ár.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðaveita hjörtu ykkar og hugsanir í samfélaginu við Jesú Krist.  Amen

 

Aftansöngur á gamlárskvöldi

Bæn dagsins
Almáttugi eilífi Guð, við þökkum þér að þú hefur varðveitt okkur í náð þinni til þessarar stundar. Við biðjum þig: Leið og leiðbein okkur einnig á hinu komandi ári í miskunn þinni og mildi og lát blessun þína hvíla yfir okkur, fyrir Jesú Krist frelsara okkar og Drottin sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir. Einn sannur Guð um aldir alda. Amen.

Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 90.1b-4, 12
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Pistill: Heb 13.5b-7
Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Minnist leiðtoga ykkar sem Guðs orð hafa til ykkar talað. Virðið fyrir ykkur hvernig ævi þeirra lauk og líkið eftir trú þeirra.

Guðspjall: Lúk 12.35-40
Verið vel tygjuð og látið ljós yðar loga og verið lík þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun búa sig, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. Það skiljið þér að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“